Undanfarið hafa óvenjulega margir gróðureldar komið upp á og í kringum höfuðborgarsvæðið. Mikil sól hefur verið á suðvesturhorninu undanfarið og lítið um rigningu á sama tíma. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, er ein þeirra sem hefur áhyggjur af sinueldunum.
„Fréttir af eldhættunni sem stafar af sinu og trjágróðri í einmuna þurrkatíð undanfarinna vikna hafa tekið við af Covid-fréttum á forsíðum blaðanna. Það er augljóst að grillpartí á Stór-Skorradals-Grímsnessvæðinu eru ekki málið þessa dagana,“ segir Jóhanna í bakþönkum Fréttablaðsins í dag.
Jóhanna segist vera stoltur eigandi sumarhúss á Vesturlandi, nánar tiltekið í Skorradal. Hún hefur eytt nokkrum dögum í að raka sinu, saga niður tré í kringum húsið en auk þess hefur hún gengið svo langt að safna saman þurru laufi. Þetta gerir hún að öllum líkindum til að koma í veg fyrir að eldur kvikni og berist að sumarhúsinu.
„Það er ekki mjög íslenskt, enda erum við svo óvön trjám að það má helst ekki skerða greinar þeirra, hvað þá saga þau niður. Ég fór sem sagt um hlíðina með sög í vinstri og hrífu í hægri, eins og kona gerir á uppstigningardag. Sumir myndu segja eins og eldur í sinu.“
Jóhanna segir svo frá því þegar hún fór í Bónus í Borgarnesi en þar heyrði hún miðaldra hjón tala um að grilla. „Ég er því enn að jafna mig eftir að hafa, óvart vel að merkja, heyrt á tal miðaldra hjóna í Bónus í hinum eðla bæ Borgarnesi. Þau töluðu í hálfum hljóðum (svona heyri ég óskaplega vel) um hvað þau ættu að grilla í bústaðnum, kalda piparsósu með grillsteikinni, og mikilvægi þess að muna eftir að kaupa kol og grillvökva,“ segir hún.
„Nú gæti forsjárhyggjufólk haldið því fram að skynsamlegast væri að læsa kol og grillvökva inni á meðan við bíðum eftir hinu eðlilega íslenska rigningarsumri. Hinn möguleikinn er auðvitað að læsa þessi hjón inni þar til byrjar að rigna. En trúið mér, reynslan sýnir að íslenska rigningarsumarið mun koma. Þangað til skulum við ekki vera grillandi kjánaprik, umkringd þurri sinu og brakandi ársgamalli lúpínu. Það er líka miklu meiri stemning að grilla í grenjandi rigningu.“