Lyfjastofnun hefur birt tilkynningu þar sem áréttað er að heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag þar sem hvatt er til að kynna aukaverkanir af bólusetningum með bóluefnum við Covid-19 til Lyfjastofnunar séu ekki frá stofnuninni komnar.
Enginn er merktur fyrir auglýsingunni en undirskriftin er: „Við erum öll Almannavarnir“
Ennfremur segir Lyfjastofnun að upplýsingar í auglýsingunni um hugsanlegar aukaverkanir séu villandi. Segir þar meðal annars að bólusetningar geti valdið blindu og lömun.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir grafalvarlegt að í auglýsingunni birtist upplýsingar um aukaverkanir sem séu óstaðfestar eða jafnvel kolrangar. Kemur þetta fram á mbl.is.
„Þær athugasemdir sem við gerum er auðvitað í fyrsta lagi að það er verið að láta líta út fyrir að þetta séu einhver yfirvöld sem eru að auglýsa þarna, sem er ekki náttúrulega. Árvakur [útgáfufélag Morgunblaðsins] verður auðvitað að bera einhverja ábyrgð á þessu, vegna þess að þarna er verið að blása upp einhvern hræðsluáróður,“ segir Rúna.
https://www.facebook.com/lyfjastofnun/posts/3758000704325842