Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður virðist í óðaönn að fjarlægja allt efni sitt af Youtube og Spotify. Smartland Mörtu vekur athygli á þessu en við athugun á Youtube-rásinni Podcast með Sölva Tryggva sést að þaðan er allt efni horfið.
Hið sama gildir um Spotify-svæði Sölva.
Sölvi hefur haldið úti geysilega vinsælum viðtalsþáttum á Youtube og Spotify. Nýlega kærði fyrrverandi unnusta hans hann til lögreglu fyrir ofbeldi. Kæran kom í kjölfar viðtals sem lögfræðingur Sölva tók við hann í podkast-þætti hans þar sem hann lýsti sig saklausan af ásökunum um ofbeldi. Voru þá í gangi miklar sögur um meint ofbeldi Sölva en margt í þeim sögusögnum var óljóst og annað ekki í samræmi við staðreyndir.
Að kvöldi 14. mars hringdi Sölvi í lögregluna, að sögn vegna hótana þáverandi unnustu hans, en þau voru að slíta sambandi. Konan lýsir hins vegar í kæru á Sölva meintu líkamlegu ofbeldi hans gegn sér þetta kvöld.
Sölvi lagðist inn á geðdeild í kjölfar fjölmiðla- og samfélagsmiðlaumfjöllunar um sig en dvaldist þar um stutt skeið. Lögmaður hans, Saga Ýrr Jónsdóttir, hefur sagt sig frá málum hans og beðið afsökunar á framgöngu sinni í áðurnefndum podkastþætti.