Fjölmiðlar hafa ekki fengið aðgang að ákærum í Rauðagerðismálinu þar sem ekki er búið að birta sakborningum ákærurnar með fyrirkalli. Það verður gert á morgun, miðvikudag, en þremur dögum síðar er hægt að birta öðrum ákærurnar.
Vitað er að hin ákærður, sem eru fjögur, eru öll erlend. Einn þeirra er Angjelin Sterkhaj, sem játað hefur morðið á Armando Beqiri, en hann skaut hann með skammbyssu með hljóðdeyfi fyrir utan heimili Armandos í Rauðagerði, laugardagskvöldið 13. febrúar síðastliðinn.
Bæði Angjelin og Armando eru frá Albaníu. Meðal ákærðra er ein kona og er það unnusta Angjelins, hún er frá Portúgal. Hún er talin hafa elt Armando kvöldið sem hann var myrtur.
Tveir karlmenn eru síðan ákærðir fyrir hlutdeild í glæpnum, eru þeir báðir erlendir en DV hefur ekki upplýsingar um þjóðerni þeirra.
Samkvæmt staðfestum heimildum DV er fólkið allt ákært fyrir brot á 211. grein hegningarlaga: „Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“
Fólkið er því allt talið eiga hlutdeild í morðinu en ekki virðast ákærur fyrir önnur brot vera undir, svo sem peningaþvætti eða fíkniefnasmygl, en grunur lék á slíku við upphaf rannsóknar lögreglu.
Þá skal hér ítrekað að eini Íslendingurinn sem sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins, Anton Kristinn Þórarinsson, er ekki ákærður og virðist ekki hafa átt neinn þátt í þessum glæp.