Héraðssaksóknari hefur ákært konu fyrir kynferðisbrot á hóteli í Reykjavík í apríl árið 2019.
Konan er sögð hafa brotið á annarri konu sem lá við hlið hennar í rúmi á hótelinu. Meðan brotaþoli svaf greip konan í hendi hennar og strauk meðfram nöktum líkama sínum. Þegar brotaþoli lýsti því yfir að hún vildi ekki strjúka henni þá hóf konan að strjúka brotaþola utanklæða frá brjóstum og niður á læri.
Eftir þetta mun brotaþoli hafa fært sig út á brún rúmsins og vafið utan um sig sæng, að því er segir í ákærunni. Þá á konan að hafa fært sig að brotaþola, strokið líkama hennar yfir sængina, lagt andlit sitt að andliti brotaþola og sagt: „Við skulum bara hafa kósý“, „Er þetta ekki gott“ og „Er þetta ekki bara kósý“
Er konan ákærð fyrst fyrir kynferðislega áreitni, en til vara fyrir að hafa með lostugu athæfi sært blygðunarkennd brotaþola.
Brotaþoli gerir þá einnig einkaréttarkröfu og krefst bóta að fjárhæð 943 þúsunda króna.