Sumarið 2017 barst lögreglunni á Suðurnesjum tilkynning um vinnuslys í Plastgerð Suðurnesja að Framnesvegi 21 í Reykjanesbæ. „Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru sjúkraflutningamenn að bera slasaðan mann inn í sjúkrabíl á sjúkrabörum. Samkvæmt upplýsingum sjúkraflutningamanna hafði hinn slasaði, A, klemmst á búk í svokallaðri frauðkassasteypuvél, en slík vél er notuð til að pressa frauðefni saman í form svo úr verði frauðkassar,“ segir í lýsingu á málsatvikum í dómi Héraðsdóms Reykjaness en dómur var kveðinn upp í þessu máli á föstudag.
Starfsmaðurinn lést af sárum sínum en í ljós kom að einn sakborninga, Sigurgeir Svanur Jóhannsson, verkstjóri hjá Plastgerð Suðurnesja, hafði gert öryggisbúnað frauðplastvélarinnar óvirkan. Ástæðan fyrir þessum verknaði Sigugreirs sú að öryggishurðin var að lokast í tíma og ótíma og olli skemmdum á framleiðsluvörum. Um þetta voru starfsmenn ekki upplýstir.
Björn Herbert Guðbjörnsson, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, var ákærður fyrir hlutdeild í manndrápi með því að hafa samþykkt að Sigurgeir gerði öryggisbúnað frauðplastvélarinnar í óvirkan, þó að honum væri fullkunnugt um að starfsmenn fóru reglulega inn í vélina til að hreinsa hana. Hann var jafnframt ákærður fyrir að hafa gefið Sigurgeiri fyrirmæli um að gangsetja allar vélar í vinnslusal án þess að starfsmenn væru upplýstir um að öryggisbúnaður frauðplastvélarinnar hefði verið óvirkjaður.
Skúli Magnússon, annar eigandi fyrirtækisins, og verkstjóri, var einnig ákærður fyrir að hafa heimilað Sigurgeiri að óvirkja öryggisbúnaðinn.
Allir þrír lýstu sig saklausa af ákærum og sögðu að rannsókn á málinu hefði verið mjög ábótavant. Á þetta féllst dómari ekki. Fram kemur að dómari skoðaði frauðplastvélina. Um það segir í texta dómsins:
„Dómari, ásamt sækjanda og verjendum ákærðu, skoðuðu umrædda frauðpressuvél og aðstæður við hana 24. febrúar 2021. Vélin hafði verið tekin niður úr vinnslusal Plastgerðar Suðurnesja að Framnesvegi 21 í Reykjanesbæ, og sett upp í starfsstöð Borgarplasts að Grænásbraut 510, Ásbrú, eftir samruna þess félags og Plastgerðar Suðurnesja. Vél þessi er allstór, af gerðinni Kurtz 1014, og er hægt að fara inn í hana til þess að þrífa mót hennar, smyrja hana og sinna viðhaldi. Við skoðun var upplýst að reglulega þyrfti að skafa mótin í vélinni þar sem frauðplast vildi festast við þau og var það gert með kíttisspaða. Á hlið vélarinnar voru grindur eða rennihurðir og stjórnborð hennar. Einnig voru þar öryggisrofar sem áttu að tryggja það að vélin stöðvaðist sjálfkrafa ef rennihurðirnar voru opnaðar, en til þess að fara inn í vélina var fremri hurðinni rennt til hliðar. Frá stjórnborðinu var auðvelt að sjá hvort hurðin væri opin eða lokuð, en hins vegar sást þaðan ekki nægilega vel inn í vélina þegar þétt var staðið við stjórnborðið. Til þess þurfti aðeins að stíga til hliðar, vinstra megin frá stjórnborðinu.“
Niðurstaða dómsins var sú að Sigurgeir Svanur var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi en þeir Björn Herbert og Skúli fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi. Hlaut Sigurgeir 60 daga skilorðsbundið fangelsi, en þeir Björn og Skúli 30 daga skilorðsbundið fangelsi hvor. Bótakröfum var vísað frá dómi en mennirnir þurfa hver um sig að greiða um eina og hálfa milljón króna í málskostnað.