Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segist hafa heimildir fyrir þessu. Haft er eftir Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá almannavörnum, að ferðamönnum fjölgi hraðar en gert hafi verið ráð fyrir í spám. Unnið sé að því að greina hvernig sé hægt að bregðast við þá daga sem álagið á landamærunum verður mest. „Það eru mjög margir áætlaðir á laugardaginn. Þetta er sá dagur sem hvað flestir hafa verið bókaðir hingað til. Við eigum eftir að sjá hve margir skila sér, þannig að það á eftir að koma í ljós hvað þarf að taka mörg sýni. Það er alveg viðbúið að það komi dagar þar sem við förum alveg að efstu mörkum þess sem kerfið þolir,“ er haft eftir honum.
Aðspurður sagði Víðir að tafir á greiningu sýna geti haft í för með sér að fólk þurfi að vera lengur í sóttkví. Hann sagðist þó ekki eiga von á að biðin verði lengri en 24 klukkustundir.