Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að ekki hafi verið svona þurrt fyrstu fjóra mánuði ársins í Reykjavík síðan 1995. Einnig hefur verið mjög þurrt nú í upphafi maí. Á Akureyri mældist heildarúrkoma fyrstu fjóra mánuði ársins 200,9 millimetrar sem er um 10% meira en meðalúrkoman 1991 til 2020.
Það sem af er ári hefur heildarúrkoman mælst meiri á Akureyri en í Reykjavík en það er nokkuð sjaldgæft að sögn Veðurstofunnar.
Í Reykjavík var meðalhitinn 2,0 gráður fyrstu fjóra mánuði ársins en það er 0,5 gráðum yfir meðallagi 1991-2020 en jafnt meðalhita síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,5 gráður á fyrstu fjórum mánuðum ársins sem er 0,2 gráðum yfir meðallagi 1991-2020 en 0,4 gráðum undir meðallagi síðustu 10 ára.