„Við höfum ekki fleiri vélar. Það er ekki flóknara en það,“ hefur Fréttablaðið eftir Sigurði Sævari Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Ístex, um stöðuna en fyrirtækið er stærsta ullarsöfnunarfyrirtæki landsins. „Við komum á kvöldvöktum til að reyna að mæta þessu en það hefur ekki dugað til,“ sagði hann einnig.
Ullin er flutt til Blönduóss en þar er hún þvegin og skipt í hráull og ull til lopa. Í Mosfellsbæ er lopinn, sem er verðmætasta varan, síðan búin til en hráullinn er til dæmis notuð í sængur og gólfteppaband.
Fréttablaðið hefur eftir Sigurði að eftirspurnin hafi aukist síðustu þrjú ár og þá sérstaklega í faraldrinum. Í maí á síðasta ári hafi pantanir farið að stækka og um síðustu áramót hafi þær orðið enn stærri en venjulega. Þetta eigi við um Svíþjóð, Finnland, Þýskaland og Bandaríkin og fleiri lönd sem Ístex er í viðskiptum við.
Aukin eftirspurn skýrist af auknum áhuga á handavinnu í faraldrinum en það er auðvitað góð iðja að prjóna þegar stunda þarf félagsforðun og fyrir marga er þetta gott fyrir andlegu hliðina.
Ístex hefur ákveðið að kaupa fleiri vélar og bæta við sig starfsfólki á kvöldvaktir.
Sigurður sagði útilokað að spá fyrir um hvenær afköst og eftirspurn nái jafnvægi.