Fréttablaðið skýrir frá þessu og vísar í bréf formannsins, Gunnars Hallgrímssonar, til bæjaryfirvalda. Þar segir hann að sótt sé að hestamönnum úr öllum áttum en hingað til hafi enginn eigandi látið undan þrýstingi og selt hesthús sitt öðrum en hestamönnum til að nota fyrir hesta fyrr en nú.
Hann segir að um ódýrt húsnæði sé að ræða og mjög mikilvægt sé að hvika ekki frá skilmálum og þar með skapa fordæmi. Stjórn húsfélags Hlíðarþúfna segir engan vafa leika á að starfsemi Villikatta sé óheimil í hesthúsahverfinu. Í bréfinu segir að það sé andstætt skipulagi hesthúsabyggðarinnar og lóðarsamningum að önnur starfsemi sé þar en sú sem tengist hestahaldi. Margir hafi reynt að komast yfir hesthús til að nota undir ótengda starfsemi og nefnir Gunnar þar á meðal vélsmiðju, vélhjólaleigu og bifvélavirkja.
„Villikettir eða önnur starfsemi ótengd hestamennsku, svo sem hundahótel, verkstæði eða bakarí, eiga ekki erindi í hesthúsahverfið og geta jafnvel ógnað hestaheilsu og öryggi hestamanna,“ segir í bréfi hans.
„Það geta allir keypt þessi hesthús og það eru engar kvaðir. Það var einu sinni þannig að bærinn og hestafélagið þurftu að samþykkja kaup, en svo var það tekið út,“ hefur Fréttablaðið eftir Arndísi Björg Sigurgeirsdóttur, formanni Villikatta. Hún sagði einnig að engin eiginleg starfsemi sé í húsi Villikatta á svæðinu. Sjálfboðaliðar komi þangað kvölds og morgna til að gefa villköttum sem séu geymdir þar inni í fimm daga áður en þeim er sleppt eftir að búið er að gelda þá og ormhreinsa. Þar séu örfáir villikettir í einu.
Hún hafnar því að kettirnir geti ógnað heilsu og öryggi hesta og hestamanna. „Hvernig gæti það verið? Ég held að það sé verið að gera eitthvað úr einhverju sem ekkert er,“ sagði hún og bætti við að hesthúsið henti ekki fyrir Villiketti og sé því aðeins til bráðabirgða.