fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Kaos, ringulreið og neysla á vettvangi brunans – Var í augnsambandi við manninn sem lést – „Hvarf inn í reykinn og sást ekki meir“

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 27. apríl 2021 12:16

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð í Bræðraborgarstígsmálinu sem hófst í gær hélt áfram nú í morgun. Marek Moszczynski er þar ákærður fyrir að hafa banað þremur og sýnt tíu öðrum banatilræði með því að leggja eld að húsinu við Bræðraborgarstíg 1 í lok júní í fyrra.

Vitnaleiðslur stóðu allan daginn í gær og hófust aftur í morgun. Gert er ráð fyrir að þær muni standa til hádegis á morgun. Þá er ráðgert að gera hlé á réttarhöldunum á fimmtudaginn og að föstudagurinn fari í málflutning lögmannanna. Hátt í fjörutíu vitni munu alls koma til með að gefa skýrslu í málinu, ýmist á staðnum, með fjarfundarbúnaði eða í gegnum síma. Ljóst er að þetta er með umfangsmeiri sakamálum sem sést hafa á Íslandi.

Fyrstur til að bera vitni í dag var Íslendingur sem bjó á neðstu hæð hússins ásamt kærustu sinni þegar bruninn átti sér stað. Maðurinn gaf vitni með fjarfundabúnaði.

„Þar með var hún úr sögunni“

Vitnið sagðist hafa verið að hengja upp þvott á neðstu hæðinni er hann varð var við eldinn á efri hæðum hússins. Hann hafi þá hlaupið út á nærbuxunum einum klæða og séð fólk fast uppi á þaki hússins. Húsið var þannig byggt að íbúar á efstu hæðum hússins gátu klifrað út um glugga og komist þannig á þak annars hluta þessa sama húss.

Sagðist vitnið þar hafa staðið í hópi fólks og virtust allir frosnir yfir atburðunum. Hann hafi þá hlaupið til og ýtt ruslagámi upp að húsinu svo fólkið gæti stokkið af þakinu og lent þar. Lýsti vitnið því þá þegar ung kona stökk fram af þakinu en snerist í loftinu með þeim afleiðingum að höfuð hennar skall í ruslagámnum.

„Þar með var hún úr sögunni,“ sagði maðurinn.

Hér skal tekið fram að lögreglumaður sem síðar bar vitni sagðist hafa séð manninn á vettvangi, en að hann hafi ekki verið á nærbuxunum einum klæða. Lýsti sá sami lögreglumaður að honum hafi ekki litist á þá hugmynd að hún myndi stökkva niður á ruslagáminn. Sagði lögreglumaðurinn jafnframt að fyrir honum virtist konan hafa misst takið og dottið frekar en að hafa sleppt takinu eða stokkið.

Maðurinn, íbúinn á jarðhæðinni, sagðist þá hafa ætlað að hlaupa inn í húsið aftur til þess að klæða sig í föt en lögreglumenn hafi þá „tæklað“ sig með þeim afleiðingum að hann hafi slasast. „Svo var ég bara keyrður út af lögreglu og kastað í járn. Svo var mér kippt inn í bíl og farið með mig niður á stöð.“

Maðurinn var þá spurður hvort að hann kannaðist við það að lögregla hafi verið kölluð til vegna áfloga á milli þeirra kvöldið eða nóttina fyrir brunann. Hann sagðist muna óljóst eftir atburðunum á þessum tíma vegna mikillar neyslu.

„Ástæðan fyrir því að ég fraus ekki og gat hjálpað var að ég var svo lyfjaður og ruglaður á þessum tíma,“ sagði maðurinn. „Ég var samt ekki það ruglaður að ég gat ekki vitað hvað ég var að gera.“

„Lögreglan kom nokkrum sinnum á þeim tíma sem ég bjó þarna,“ sagði maðurinn jafnframt.

Saksóknarinn spurði þá manninn hvernig hann var um hárið á þessum tíma. „Ég var með svipað hár og ég er núna,“ svaraði maðurinn.

„Hefurðu einhvern tímann verið krúnurakaður?“ spurðu saksóknarinn.

„Nei, ekki síðan ég var níu ára strákur.“

Maðurinn ásamt þáverandi kærustu var handtekinn á vettvangi eldsvoðans en þau óhlýðnuðust skipunum lögreglu á vettvangi. Myndbönd náðust af átökunum og fóru þau í dreifingu síðasta sumar.

Maðurinn sagði það alrangt að hann hefði óhlýðnast skipun lögreglu, hann hafi verið á leið út úr húsinu með dekk og felgur sem hann sótti inn í brennandi húsið. Þegar verjandi tók til máls endurtók hann spurningu saksóknarans: „Varstu krúnurakaður á þessum tíma?“ Aftur svaraði maðurinn því að hann hafi ekki verið snoðaður síðan hann var níu ára gamall.

Öll vitnin í gær voru spurð að því, ýmist af verjanda eða saksóknara, hvort að vitnið kannist við að hafa séð eða þekkt til krúnurakaðs manns á jarðhæð hússins.

Sakborningurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær með lögmanni sínum og túlki. mynd/Ernir

Neitaði að hafa kveikt eldinn

Þáverandi kærasta mannsins var næst á dagskrá réttarins. „Ég var sofandi og var vakin upp af mínum fyrrverandi og dregin út og þá sé ég að húsið stendur bara í ljósum logum. Meira man ég eiginlega ekki.“

Konan sagðist hafa verið í neyslu með kærasta sínum á þessum tíma og hafa sofið þungum svefni þennan dag. Aðspurð hvers vegna hún hafi farið aftur inn í húsið eftir að hafa verið komin út svaraði konan því til að það hafi verið vegna þess að kærastinn hafi beðið hana um það.

„Hann bað mig um að koma aftur inn. Ég held að honum hafi vantað eitthvað. Ég fór aftur inn og náði í skóna mína og bankaði svo á hurðirnar þar inni. Ég reyndi að brjóta upp eina hurð til að athuga hvort að köttur vinkonu minnar væri þar,“ sagði konan.

Áfram svaraði konan spurningum saksóknarans.

„Varstu handtekin?“

„Já,“ svaraði konan. „Ég fékk ekki að vita hvers vegna fyrr en eftir á, en þeir sögðu að ég hafi ekki hlýtt fyrirmælum. Ástandið var ekki gott.“

„Varstu í neyslu?“

„Já.“

„Varstu undir áhrifum á þessum tíma?“

„Já.“

„Manstu eftir þessum tíma?“

„Já og nei, þetta er allt í móðu.“

„Hvernig var hárið á kærasta þínum á þessum tíma?“

„Hann var algjör lubbi, og hann var með skegg líka.“

Líkt og DV sagði frá í gær hafa margar spurningar verjandans til vitna í málinu snúist um sköllóttan mann á jarðhæð hússins. Það kom því fáum á óvart þegar verjandinn, Stefán Karl, spurði kærustuna, enn og aftur: „Hvernig var hárið á honum?“ Verjandinn spurði konuna svo hvort hún hafi séð fólk skríða inn um glugga á hlið hússins. Konan svaraði því neitandi.

Verjandinn spurði því næst hvort að konan hefði einhvern tímann farið með manninum sínum út á bensínstöðina N1 að kaupa bensín í brúsum. „Nei,“ svaraði konan. „Tókst þú þátt í því að kveikja þarna eld í húsinu,“ spurði verjandinn konuna. „Nei.“

Sáu sólgleraugum kastað út um glugga rétt fyrir brunann

Næstir í vitnastúku voru menn sem voru að skipta um glugga í nærliggjandi húsi. Sögðust þeir hafa orðið varir við læti í húsinu við Bræðraborgarstíg 1. Þegar þeir litu til hússins sáu þeir að þar var einhver að kasta sólgleraugum út um gluggann. „Maður hefur séð ýmislegt í þessu húsi og kippir sér ekki mikið upp við það.“

Um fimm mínútum síðar sögðust mennirnir hafa séð manninn labba út úr húsinu með föt á öxlinni. „Jæja, ég segi það sama, maður hefur nú séð ýmislegt skrýtið þarna í húsinu,“ sagði einn þeirra í vitnastúku.

Annar mannanna hvarf þá af vettvangi til að sinna barni sínu annars staðar í borginni. Hinn maðurinn sagðist þá hafa séð reyk út um gluggann er hann kom út úr húsinu sem hann var að vinna við. Maðurinn sagði að samtals hafa liðið um 10-12 mínútur frá því að þeir heyrðu fyrstu lætin og þar til þeir urðu varir við reykinn. „Ég hringi þarna í slökkviliðið og á meðan ég er í símanum sé ég eldinn í herberginu.“

Báðir mennirnir sögðust hafa séð þennan sama mann daginn áður þar sem hann hafi verið ör og æstur.

Þeir lýstu því þá hvernig þeir aðstoðuðu eins og þeir gátu þar til viðbragðsaðilar tóku stjórnina á vettvangi. Þá fóru þeir í að bleyta húsið sem þeir voru að vinna við, enda var þar opið í bera frauðplasteinangrun og húsið farið að hitna. „Það hefði ekki þurft nema að áttin breyttist til þess að það hefði kviknað í því líka,“ sagði annar mannanna.

„Við höfðum talað um að það væri talsverð brunahætta þarna, sérstaklega þar sem það væri alls konar fólk þarna,“ sagði hann. Hann sagði jafnframt að félagi sinn, eigandi hússins beint á móti húsinu sem brann hafi áður sagt við sig að hann hefði margoft sent borginni viðvaranir og kvartanir vegna hússins við Bræðraborgarstíg 1.

Verjandi spurði manninn sem var á staðnum þegar eldurinn kviknaði hvort hann hefði grunað manninn sem hann sá labba út úr húsinu skömmu áður um íkveikju. „Já, manni grunar það að sjálfsögðu. En ég sá hann ekki kveikja í,“ svaraði hann.

Sakborningurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur. mynd/Ernir

„Hann sást ekki meir, hann hvarf inn í reykinn“

Fjórir lögreglumenn gáfu þá skýrslu, hver á fætur öðrum, og lýstu þeir aðkomu sinni að brunanum. Ljóst er að gríðarleg ringulreið var á vettvangi. Einn hafði fallið út um gluggann, önnur kona lá ofan í ruslatunnu eftir fall úr glugga á þriðju hæð. Lögreglumenn veittu þeim fyrstu hjálp. Annar lögreglumaður fór í það að reisa stiga við gluggann þaðan sem konan hafði fallið, en þar var annar maður á ferð.

Lögreglumaður lýsti því að hann hefði verið í augnsambandi við manninn inni í húsinu sem ekki tókst að bjarga. „Hann sást ekki meir, hann hvarf bara inn í reykinn.“

Annar lögreglumaðurinn sagði þá að menn á vettvangi hefðu sagt við hann að þeir vissu hver kveikti eldinn. Fljótlega hefði nafnið Marek komið upp en skömmu síðar heyrði sá sami lögreglumaður það nafn kallað í talstöðina en kollegar lögreglumannsins höfðu þá handtekið mann að nafni Marek við rússneska sendiráðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Netverjar bregðast við yfirlýsingu Kristrúnar – „Ég hef kynnst mörgum slíkum í gegnum tíðina“

Netverjar bregðast við yfirlýsingu Kristrúnar – „Ég hef kynnst mörgum slíkum í gegnum tíðina“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum
Fréttir
Í gær

Salka Sól fokvond út í Bjarna – „Honum er bara drull“

Salka Sól fokvond út í Bjarna – „Honum er bara drull“
Fréttir
Í gær

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings