Angjelin Sterkaj, albanskur maður sem játað hefur á sig morð á samlanda sínum, Armando Bequirai, fyrir utan heimili þess síðarnefnda að Rauðagerði, laugardagskvöldið 13. febrúar, kom fyrst til Íslands árið 2014. Hann sótti þá um alþjóðlega vernd en þeirri beiðni var hafnað af Útlendingastofnun.
Í kjölfarið sótti Angjelin um atvinnu- og dvalarleyfi en í þeirri umsókn framvísaði hann, samkvæmt öruggum heimildum DV, fölsuðu sakavottorði. Útlendingastofnun tilkynnti brotið til lögreglu en lögregla aðhafðist ekki í málinu þar sem skjalafals er brotaflokkur sem nýtur ekki forgangs hjá lögreglu og talinn minniháttar. Samkvæmt almennum hegningarlögum er hámarksrefsing fyrir skjalafals 8 ára fangelsi.
Umsókn Angjelin um dvalar- og atvinnuleyfi lá lengi óafgreidd. Samkvæmt heimildum DV átti að vísa Angjelin úr landi en af óskýrðum ástæðum fór það svo að umsókn hans um atvinnu- og dvalarleyfi var skyndilega samþykkt.
Eins og komið hefur fram áður í fjölmiðlum er Angelin ákærður fyrir vopnað rán í heimalandi sínu í Albaníu. Beiðni albanskra yfirvalda um framsal hans til Albaníu árið 2017 var hafnað af íslenskum yfirvöldum þar sem ekki er í gildi framsalssamningur milli þjóðanna.
Angjelin Sterkaj segist hafa verið einn að verki við morðið á Armando Bequirai en hann skaut hann til bana með skammbyssu með hljóðdeyfi. Angjelin er fæddur árið 1986. Hann á barn með íslenskri konu, ungan dreng. Á Íslandi er hann aðallega talinn hafa starfað sem dyravörður. Í lok sumars árið 2020 komst hann í fréttir vegna hópslagsmála sem brutust út á milli albanskra dyravarða og ungmenna að suður-amerískum uppruna. Var meðal annars beitt hnífum í átökunum.
DV hefur leitað til Útlendingastofnunar og beðið um skýringar á því hvernig maður sem beitti skjalafölsun við umsókn sína um atvinnu- og dvalarleyfi fékk slíka umsókn samþykkta.
DV hefur einnig heimildir fyrir því að á undanförnum misserum hafi verið horfið frá þeirri reglu að krefjast frumrita sakavottorða í umsóknum um atvinnu- og dvalarleyfi. Þegar umsókn Angjelin var samþykkt gilti enn reglan um frumrit.
Fyrir svörum varð Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, sem segist ekki geta tjáð sig um einstök mál en af almennum svörum hennar er ljóst að skjalafals jafngildir engan veginn sjálfkrafa að umsókn um atvinnu- og dvalarleyfi sé hafnað, og að umsækjandi hafi brotið af sér felur heldur ekki í sér að umsókn sé hafnað, heldur er horft á aðstæður í heild. Í svari Þórhildar segir:
„Varðandi sakavottorð og vægi þeirra þá gilda ákvæði 10. gr. reglugerðar um útlendinga en þar segir að umsækjandi skuli leggja fram yfirlýsingu um að hann hafi hreinan sakaferil í samræmi við ákvæði laga um útlendinga. Í framkvæmd óskar stofnunin almennt eftir afritum sakavottorða en frumrita er óskað ef ástæða þykir til. Þessi breyting kemur til með setningu laga um útlendinga nr. 80/2016 og nýrrar reglugerðar um útlendinga. Í tíð eldri laga var gerð skilyrðislaus krafa um frumrit sakavottorða.
Lög um útlendinga gera ekki kröfu um hreinan sakaferil en í d-lið 55. gr. laganna er gerður sá áskilnaður varðandi grunnskilyrði dvalarleyfis að ekki liggi fyrir atvik sem geta valdið því að viðkomandi yrði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Er þá litið til ákvæða XII. kafla laga um útlendinga varðandi frávísun og brottvísun en þar segir um brottvísun vegna brota erlendis ,,hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi“. Í 2. mgr. 69. gr. laganna er einnig skilyrði um að sá sem sækir um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar megi ekki hafa hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot á XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga nema synjun um dvalarleyfi myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu fjölskyldumeðlimum hans.“
Í svörum Þórhildar kemur fram að brotlegum útlendingi sé ekki vísað úr landi ef brottvísunin feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart nánustu aðstandendum og skal sérstaklega hugað þar að aðstæðum barna. Eins og komið hefur fram eignaðist Angjelin son hér á landi með íslenskri konu og mun drengurinn vera sex ára gamall í dag. Þórhildur segir:
„Sakavottorð eru því fyrst og fremst nýtt til þess að varpa ljósi á hvort þessi brottvísunarástæða sé fyrir hendi eða ástæður sem varða skuli synjun leyfis skv. 2. mgr. 69. gr. Hins vegar eru einnig í lögum um útlendinga takmarkanir á ákvörðunum um brottvísanir. Sú sem kemur oftast til skoðunar er í 3. mgr. 102. gr. laganna og hljómar svo: „Brottvísun skal ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.“ Þegar útlendingur með dvalarleyfi hefur framið brot, hvort sem er hér á landi eða erlendis, þarf því ávallt að meta hvort brottvísun sé tæk í ljósi tengsla viðkomandi við landið og áhrifa slíkrar ákvörðunar á hans nánustu.“
Ennfremur kemur fram í svari Þórhildar að skjalafals feli ekki sjálfkrafa í sér brottvísun. Þórhildur segir að rannsóknir á skjalafalsi séu vandkvæðum bundnar:
„Vakni grunur um fölsuð gögn hjá Útlendingastofnun þá er slíkum málum vísað til lögreglu enda um refsivert brot í skilningi hegningarlaga að ræða. Slíkar rannsóknir geta augljóslega verið ýmsum vandkvæðum háðar og stofnunin framkvæmir ekki slíkar rannsóknir sjálf. Hins vegar er það svo að niðurstaða úr slíku máli gefur ekki endilega tilefni til þess að beita brottvísun enda þarf að taka tillit til ofangreindra takmarkana á ákvörðun um brottvísun og framkvæma mat á því út frá eðli brotsins og tengsla viðkomandi við landið. Ef ekki er talið tilefni til að beita brottvísun þá er almennt ekki talið tilefni til að synja um útgáfu eða endurnýjun dvalarleyfis á þeim grundvelli.“