Fréttablaðið skýrir frá þessu og vísar í svar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn blaðsins. Fram kemur að í þessum málum komi 413 aðilar við sögu, 349 einstaklingar og 64 fyrirtæki. Sumir aðilanna koma að fleirum en einu máli. Fleiri en einn aðili geta verið skráðir í sama málinu og dæmi eru um að fyrirtækjaeigandi og fyrirtæki hans séu skráð fyrir sama brotinu.
Í sektarmeðferð felst að ákveðið hefur verið að sekta fyrir brot en staða mála í því ferli getur verið misjöfn. Sekt getur hafa verið gefin út, hún hefur hugsanlega borist hinum brotlega eða hann greitt sektina.
Af málunum 90 eru 85 mál einstaklinga og 5 mál fyrirtækja. Hvað varðar fyrirtæki hafa tæplega 8% mála á hendur þeim farið í sektarmeðferð.
Brotaflokkarnir sem um ræðir eru brot á skyldu til að fara í sóttkví, brot í sóttkví, einangrun ekki haldin eða henni ekki sinnt þrátt fyrir staðfesta sýkingu, brot á sóttvarnalögum, brot á reglum um fjöldasamkomur og brot á reglum um lokun samkomustaða. Ekki fengust upplýsingar hjá ríkislögreglustjóra um fjárhæðir sektanna.