Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að í svari ríkissaksóknara við fyrirspurn blaðsins komi fram að enginn hafi verið ákærður fyrir brot á þessu ákvæði hegningarlaganna síðan að heimsfaraldurinn skall á. 85 einstaklingar og 5 fyrirtæki hafa verið sektuð vegna brota á sóttvarnareglum frá upphafi faraldursins.
Samkvæmt lögum er skylt að gera ríkissaksóknara strax viðvart ef ákært er á grundvelli 175. greinar hegningarlaganna en það hefur ekki verið gert að sögn Sigríðar Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara. Héraðssaksóknari fer með ákæruvald vegna brota á 175. grein hegningarlaga en lögreglustjórar fara með ákæruvald vegna brota á sóttvarnalögum.
Ríkissaksóknari hefur gefið út fyrirmæli um viðurlög við sóttvarnabrotum en í þeim segir meðal annars að upp geti komið brot sem séu þess eðlis að þau heyri undir ákvæði 175. greinar hegningarlaga og því skuli ákæra fyrir þau. „Sem dæmi má nefna að sakborningur geri nokkurn hóp manna útsettan fyrir sýkingu eða sýki hóp manna af COVID-19 og enn alvarlegra ef um er að ræða að útsetja eða sýkja þá sem eru í sérstakri hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma,“ segir í fyrirmælunum.