fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Kókaínsmygl og kennitöluflakk – Jóhann Jónas hjá Já iðnaðarmönnum nú ákærður fyrir skattsvik

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 21. apríl 2021 20:00

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðssaksóknari hefur ákært Jóhann Jónas Ingólfsson fyrir meiri háttar brot á skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri fyrirtækisins Já Art2b verkstæði. Jóhannes á sér langa sögu svika og pretta, og var dæmdur fyrir kynferðisbrot og fíkniefnasmygl á 10. áratug síðustu aldar. Þá flúði Jóhann land eitt skiptið og kom sér þannig hjá afplánun fangelsisdóms.

Í ákærunni er Jóhann sagður hafa hvorki staðið skil á lögbundnum virðisaukaskattsskýrslum né skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 2017 og 2018. Eru svik Jóhanns samtals sögð nema rétt tæpum 57 milljónum króna. Þá er Jóhann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinninginn af meintum skattsvikum sínum í rekstur fyrirtækisins.

Saga Jóhanns og Já verktaka sem hann hefur rekið undir hinum ýmsu nöfnum teygir sig aftur mörg ár. Árið 2017 sagði DV frá því að fyrirtæki Jóhanns, Já iðnaðarmenn hefði orðið gjaldþrota. Í samtali við DV þá sögðu birgjar fyrirtækis Jóhanns að hann hefði skilið eftir sig sviðna jörð er hann færði rekstur sinn af gjaldþrota kennitölunni og yfir á nýja. Rétt fyrir gjaldþrot Já iðnaðarmanna breytti Jóhann nafni fyrirtækisins yfir í Verktakar og endurbætur ehf. 126 milljóna kröfur voru gerðar í þrotabú gamla Já iðnaðarmanna en engar eignir fundust í þrotabúinu.

Sagði í þeirri sömu frétt DV, að Jóhann hefði skömmu eftir gjaldþrot Já iðnaðarmanna auglýst eftir iðnaðarmönnum til starfa, enda umsvifin aldrei meiri. Samkvæmt heimildum DV bárust eftirlitsaðilum fjölmargar kvartanir vegna starfsemi Jóhanns. „Ég er búinn að vera í þessum bransa í þrjátíu ár og ég hef aldrei kynnst öðrum eins siðblindingja,“ sagði Ingólfur Steingrímsson, eigandi Kvarna ehf. við DV árið 2017. „Hann skuldar okkur tæplega sex milljónir auk þess sem hann er enn með vinnupalla fyrir um tvær milljónir króna. Þegar við höfum gengið á hann þá vísar hann bara á skiptastjóra þrotabúsins og virðist telja að málið komi sér ekki lengur við,“ segir Ingólfur.

Samkeppnisaðili Kvarna, Stoð pallaleiga hafði sömu sögu að segja af Jóhanni. Ingólfur sagði þá að samkeppnisaðilarnir hefðu sameinast við að hafa uppi á eignum sínum sem Jóhann sveik af þeim. „Ég kærði Jóhann fyrir löngu en hann er ekki einu sinni kallaður til skýrslutöku. Á meðan fær hann að halda áfram óáreittur og skilja eftir sig sviðna jörð,“ sagði Ingólfur að lokum.

Dæmdur fyrir kynferðisbrot og Stóra-kókaínmálið

Brotaferill Jóhanns hófst þó löngu áður en hann gerðist stórtækur verktaki. Árið 1977 fékk Jóhann tvo skilorðsbundna dóma fyrir þjófnað og svoleiðis hélt það áfram næstu árin. Í frétt Pressunnar frá því í september 1992 segir að Jóhann hafi komist yfir 20 sinnum í kast við lögin á 18 árum.

Á 10. áratugi síðustu aldar var hann sakfelldur fyrir kynferðisbrot og afplánaði hann sex mánaða fangelsisdóm í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.

Í Hegningarhúsinu kynntist Jóhann Steini Ármanni Stefánssyni og átti sá vinskapur eftir að reynast þeim báðum örlagaríkur. Jóhann hafði þá verið handtekinn í febrúar 1991 með þrjú kíló af hassi. Jóhann sá sér þá leik á borði og sveik vin sinn í hendur lögreglunnar. Jóhann sagði lögreglu frá innflutningi Steins og tók sér hlutverk tálbeitu er hann þóttist ætla að kaupa efnin af Steini. Jóhann freistaði þess svo að fá mildari dóm í hassmálinu sínu. Steinn Ármann fékk 7 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kókaínsmyglið.

Steinn Ármann var síðar dæmdur fyrir hættulega líkamsárás og er hann var á reynslulausn vegna þess dóms árið 2002, myrti hann mann á Klapparstíg. Sagði í frétt DV frá þeim tíma að lífshættulegt magn af kókaíni hefði fundist í blóði Steins.

Jóhann hlaut sjö mánaða dóm fyrir hassmálið, en fór af landi brott áður en hann hóf afplánun refsingarinnar. Íslensk stjórnvöld leituðu þá til Interpol en saman tókst þeim þó ekki að fanga Jóhann. Jóhann snéri aftur árið 1999 þegar dómurinn yfir honum var fyrndur. Í samtali við blaðamann skömmu eftir að hann snéri aftur til landsins sagðist Jóhann ekki hafa verið að flýja yfirvöld. „Það er ekki við mig að sakast ef Interpol nær ekki að sinna sínu starfi,“ sagði hann.

Í samtali við blaðamann DV sagði Jóhann að fíkniefnabrotin sín hefði hann framið sem ungur maður í neyslu, en hann hefði síðan sagt skilið við það líf.

mynd/skjáskot timarit.is

Gjaldþrotahrinan heldur áfram

Árið 2018, aðeins rúmu ári frá því að Já verktakar urðu gjaldþrota fór annað félag Jóhanns á hausinn, Já verktakar Art2b ehf. Jóhann flutti þá reksturinn yfir á félagið Já iðnaðarmenn verkstæði ehf., og hélt ótrauður áfram. Skrifstofur verktakans voru þá í Þverholti 18, en þar bjuggu jafnframt erlendir verkamenn sem Jóhann hafði í vinnu. Lögregla var kölluð til í eitt skipti er egypskur verkamaður réðst inn á skrifstofuna vopnaður hnífi og hafði í hótunum. Maðurinn sagði Jóhann ekki hafa greitt sér og félögum sínum laun.

Í samtali við blaðamann nú sagði Jóhann það rangt að hann hefði ekki greitt laun. Hið rétt í málinu væri að Egyptinn hefði logið sig inn fyrir dyr Jóhanns og sagst vera frá EES ríki. Þegar kom að því að gera upp við manninn hefði hið rétta komið í ljós, að maðurinn væri ekki með atvinnuleyfi.

Eigandi húsnæðisins við Þverholt 18 höfðaði síðar mál gegn Jóhanni vegna vangreiddrar leigu og krafðist útburðar. Rekstur Jóhanns var þá kominn á þriðju kennitöluna. Ekki tókst að birta Jóhanni stefnuna en hann var þá skráður til heimilis í Danmörku í þjóðskrá, með ótilgreint heimilisfang.

Í júlí 2019 virðist Jóhann hafa byrjað að undirbúa næsta gjaldþrot og stofnað félagið Málning, Múr og Meira. DV ræddi af því tilefni við framkvæmdastjóra fyrirtækisins Múr og Mál ehf., sem sagði farir sínar ekki sléttar. „Mér finnst alveg furðulegt að svona menn geti haldið áfram að stofna nýja kennitölu, nýtt VSK-númer. Er ekkert í kerfinu sem getur komið í veg fyrir þetta? Ég get ekki ímyndað mér annað en að hann sé bara við sama heygarðshornið. Hann er að pretta. Hann rukkar fólk og gengur hart eftir því að fá fyrirframgreiðslur. Hann er gjörsamlega siðlaus,“ sagði Elías Vífilsson, eigandi og framkvæmdastjóri Múr og Mál ehf.

Í febrúar í fyrra var svo þriðja félagið, Já iðnaðarmenn, úrskurðað gjaldþrota.

Seinna það sama sumar fékk DV ábendingu um að Málning, Múr og Meira ehf., hefði sent auglýsingabækling í fjölmörg hús í Reykjavík. Símanúmerið sem gefið var upp á bæklingnum var símanúmer Jóhanns. Á sama tíma fékk DV ábendingar um ógreiddar launakröfur. Í samtali við DV þá hafði Jóhann í hótunum um að klaga blaðamann til framkvæmdastjóra útgáfufélagsins, sem hann og gerði með litlum árangri. Launakröfurnar voru síðar greiddar, að því er DV kemst næst.

Í samtali við blaðamann nú sagði Jóhann það mál hafa verið misskilning og launakrafan einfaldlega ekki komin á gjalddaga. „Ég greiði laun 1. hvers mánaðar,“ sagði Jóhann.

Skattsvikamálið dómtekið fyrir sumarið

Samkvæmt upplýsingum DV hefur ákæran þegar verið birt Jóhanni og verður málið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann 29. apríl. Jóhann er nú skráður til heimilis í Hafnarfirði.

Hámarksrefsing fyrir skattalagabrotin sem Jóhann er ákærður fyrir er sex ára fangelsi auk sekta. Verði Jóhann fundinn sekur mætti dómari þá jafnframt banna honum að stofna fyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að rekstri slíks félags.

Hámarksrefsing fyrir fjárþvætti er einnig sex ára fangelsi.

Í samtali við blaðamann DV staðfesti Jóhann að honum hefði verið stefnt. Hann sagði Héraðssaksóknara ekki hafa öll gögnin í málinu og að hann muni neita sök og taka til reffilegra varna við þingfestingu málsins nú í lok mánaðarins. Þá sagðist Jóhann vera sigurviss í málinu og sannfærður um að hann verði sýknaður þegar öll gögnin í málinu liggja fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello