Eldgosið í Geldingadölum hefur svo sannarlega vakið mikla athygli síðan það hófst fyrir rúmum mánuði síðan. Eldgosið var fljótt að skella sér í heimsfréttirnar en vegna heimsfaraldursins sem geisar enn hafa fréttamenn að utan ekki verið ýkja duglegir að koma hingað til lands til að fjalla um gosið.
Nú hefur þó orðið breyting á því en fréttamaður ABC News kom hingað til lands og var í beinni frá gosstöðvunum í vinsælasta morgunþætti Bandaríkjanna í morgun, Good Morning America. Þátturinn hefur verið vinsælasti morgunþáttur landsins síðan árið 2012 og fylgjast rúmlega 3 milljónir manna með hverjum þætti.
Fréttamaðurinn Will Reeve sagði frá eldgosinu í beinni og spjallaði við kynna þáttarins. „Þetta er magnað, ég er ekki viss um að orð eða myndir geti sýnt nógu vel hversu einstakt þetta er,“ sagði Will og reyndi sitt besta við að bera fram Fagradalsfjall.
Segja má að honum hafi gengið nokkuð vel að bera nafnið fram, sérstaklega miðað við framburð útlendinga á eldfjallinu í Eyjafjallajökli. „Ég vil heyra hann segja nafnið á eldgosinu aftur,“ sagði einn kynnir þáttanna eftir innslagið hans Will frá Íslandi.
Will er fullbólusettur gegn Covid-19 og fékk þess vegna að fara nánast beint inn í landið. Þáttastjórnendur GMA America vekja sérstaklega á því að ferðamenn geti gengið í landið ef þeir eru bólusettir gegn veirunni. Þeir sem eru bólusettir þurfa þó að fara í skimun og bíða eftir niðurstöðum. Niðurstöðurnar koma yfirleitt eftir um fjórar klukkustundir, ekki má fara að gosstöðvunum fyrr en niðurstaðan er komin í hús.
Innslagið má sjá hér fyrir neðan: