fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

„Hey Muhammed, þú ert eini músliminn sem ég þekki sem er góð manneskja“

Bjarki Sigurðsson
Þriðjudaginn 20. apríl 2021 20:00

Muhammed Emin Kizilkaya Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Muhammed Emin Kizilkaya er fæddur og uppalinn í Danmörku í bænum Slagelse á Sjálandi. Foreldrar hans eru báðir Kúrdar en þar sem Kúrdistan er ekki sjálfstætt land, tilheyrir svæðið sem þau fæddust á Tyrklandi. Amma hans og afi fluttu til Danmerkur ung að aldri þegar vinnuafl vantaði þar í landi og fylgdu foreldrar hans á eftir. Eftir að hafa klárað framhaldsskóla í Danmörku fluttist Múhammed til Íslands.

Blaðamaður hitti Muhammed á heimili hans í Laugardalnum þar sem hann leigir íbúð ásamt tveimur vinum sínum. Muhammed er afar kurteis og býður upp á kaffi og kex áður en viðtalið hefst. Hann biðst afsökunar á því að bjóða svona lítinn mat en hann var í moskunni að biðja áður en viðtalið hófst og hafði því ekki tíma í að útbúa kræsingar að eigin sögn.

Hvers vegna ákvaðst þú að koma til Íslands?

„Mig langaði til að prófa eitthvað nýtt og að vera á stað sem aðrir vinir mínir höfðu ekki komið til. Það er algengt að fara til Þýskalands eða Noregs eftir framhaldsskóla en þar sem ég átti nokkra vini á Íslandi ákvað ég að koma hingað. Ég hef líka alltaf haft sérstakan áhuga á Íslandi. Ég er storm-eltir (e. stormchaser) og elska að vera í brjáluðu veðri sem er ekki beint hægt í Danmörku þar sem versta veðrið er smá þoka og rigning.“

Muhammed er nýútskrifaður með MA-gráðu frá Háskóla Íslands í félagsfræði. Námið á Íslandi hefur þó ekki verið auðvelt fyrir hann en allar kennslustundir í háskólanum fóru fram á Íslensku.

„Þegar ég kom til Íslands fór ég í Háskólann í Reykjavík á íslenskunámskeið. Mér finnst tungumál vera svo mikilvægur hluti af menningu landa þannig ég vissi að ég yrði aldrei almennilega hluti af þjóðinni nema ég myndi læra íslensku. Sérstaklega þegar þú ert með sama útlit og ég, og heitir Muhammed. Það er fullt af vondum fréttum um dökkt fólk eins og mig þannig ég setti mér markmið hvenær ég ætlaði að vera búinn að læra tungumálið. Ég fékk mikla hjálp frá fólki í kringum mig ásamt því að sækja þetta námskeið í HR.“

Hlustaði á kristilegt útvarp til að læra íslensku

Muhammed keypti sér einnig lítið vasaútvarp til að geta hlustað á talaða íslensku. Hann fann þó aðeins eina stöð sem var með umræður nánast allan daginn.

„Eina stöðin sem ég fann þar sem fólk er alltaf að tala er kristilega útvarpsstöðin Lindin. Þó að ég sé múslimi þá finnst mér það allt í lagi en ég lærði íslensku með því að hlusta á presta segja „og Jesús sagði Amen.“ Það er töluð mjög gamaldags íslenska þarna þannig fyrst um sinn var mér oft hrósað fyrir fágaða íslensku.

Eftir að hafa klárað tvær annir í íslensku við HR ákvað Muhammed að sækja um í Háskóla Íslands. Hann vildi verða félagsfræðingur.

„Ég labbaði inn á skrifstofuna í háskólanum og sagði „Hæ, ég vil verða félagsfræðingur.“ Mér var eiginlega bara ráðlagt á staðnum að sleppa þessu því ef ég vildi læra félagsfræði þyrfti ég að taka allt námið á íslensku. Ég er mjög þrjóskur og skráði mig í námið því ég vissi að þetta væri það sem ég vildi gera. Ég vildi sýna öðrum innflytjendum að þú getur farið í háskólanám á íslensku.

Fyrstu dagana skildi ég ekkert hvað var í gangi því ég kunni ekki nægilega mikið í íslensku. Ég eyddi heilu dögunum í háskólanum til að læra og svaf þar stundum. Ég kom mér í gegnum önnina en þá var komið að prófunum. Ég fór á skrifstofuna og talaði við þann sem var yfir deildinni og sagði: „Ég er búinn að koma mér í gegnum þessa önn á íslensku, get ég fengið að taka prófin á ensku?“ Málið var tekið upp á fundi og það var samþykkt að prófin yrðu þýdd fyrir mig. Samt sem áður þurfti ég að berjast fyrir því í hverjum einasta námsáfanga restina af náminu að prófin yrðu þýdd. Það gekk nánast alltaf upp og prófin þýdd almennilega en stundum voru prófin þýdd með Google Translate. Það kom ekkert sérstaklega vel út.“

Muhammed náði þó að klára BA-námið og þegar hann var að sækja um MA-nám þá var honum tjáð að öll próf í því námi yrðu á ensku. „Ég held þau hafi gefist upp á því að berjast gegn mér,“ segir Muhammed og hlær.

Segir rasisma vera fáfræði sem hægt sé að breyta

Eins og í flest öllum vestrænum ríkjum eru ekki allir á Íslandi miklir aðdáendur þeirra sem aðhyllast íslamskri trú en Muhammed segir að það sé ekki fólkinu að kenna.

„Fólk með rasisma er svona því það veit ekki betur. Þetta er eins og að labba inn í herbergi með slökkt ljós, þú veist ekkert hvað er þar inni og ert hræddur. Fólk sem ég þekki segir oft við mig „Hey, Muhammed, þú ert eini músliminn sem ég þekki sem er góð manneskja,“ en ég spyr þá alltaf á móti hvort þau þekki fleiri múslima. Nánast undantekningarlaust er svarað neitandi og áttar fólkið sig á því að þau hafi haft ranga ímynd í hausnum allan þennan tíma,“ segir Muhammed og bætir við að hann flokki ekki forvitni sem rasisma.

Starfar sem dönskukennari

Muhammed starfar í hlutastarfi við Laugalækjarskóla þar sem hann kennir dönsku. Hann vinnur mikið í sérkennslu með krökkum sem glíma við námsörðugleika. Hann nær vel til þeirra enda var hann í svipaðri stöðu og þeir þegar hann var yngri.

„Ég starfaði mikið með krökkum úr gettóinu í Danmörku þegar ég var þar þannig ég kann á þetta og næ sérstökum tengslum við þessa krakka. Þegar ég var yngri var mjög erfitt fyrir mig að skilgreina mig sem hluta af einni þjóð. Ég er alltaf útlendingur. Ég er fæddur og uppalinn í Danmörku en þar er ég útlendingur því foreldrar mínir eru Kúrdar og í Kúrdistan er ég útlendingur því ég hef alltaf búið í Danmörku. Þannig það var mjög erfitt fyrir mig að passa inn í hóp þegar ég var yngri.“

Finnur tilgang fyrir lífinu með því að hjálpa öðrum

„Þegar ég var yngri þá var ég ekki á réttri braut í lífinu en ég fékk hjálp frá sjálfboðaliðum sem beindu mér á rétta braut. Ég vil gera það sama fyrir aðra því ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ekki væri fyrir þessa sjálfboðaliða. Það var alltaf einhver til að að toga mig upp þegar ég var á leiðinni niður. Stór hluti af lífi mínu fer í að vera sjálfboðaliði því ég sé ekki tilgang í lífinu ef þú ætlar ekki að gefa frá þér,“ segir Muhammed en um svipað leyti fara nokkrir strákar að tínast inn í íbúðina.

Muhammed er að fara að hjálpa þeim með heimanámið sitt en þeir eru allir af erlendum uppruna eins og hann sjálfur.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Í gær

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna
Fréttir
Í gær

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar