fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Rauðagerðismálið: Morðið sem skók þjóðina – Eitt umfangsmesta morðmál Íslandssögunnar rakið

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 18. apríl 2021 21:00

Armando hin myrti, Anton Kristinn og Angjelin eru meðal þeirra sem nafngreindir hafa verið í málinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Morðið í Rauðagerði vakti mikinn óhug og þótti marka aukna hörku í undirheimum Íslands. Heimildir DV innan lögreglunnar herma að hún hafi um nokkurra ára skeið átt von á slíku uppgjöri og óttast að vegna manneklu og fjársveltis myndi hún ráða illa við þann hrylling sem myndi fylgja slíku uppgjöri og mögulegri hrinu hefndaraðgerða. Halla Bergþóra Björns­dótt­ir lög­reglu­stjóri sagði síðar að rannsóknin væri ein sú umfangsmesta sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ráðist í frá upphafi.

Aðfararnótt síðastliðins Valentínusardags, 14. febrúar, barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um slasaðan karlmann á fertugsaldri fyrir utan heimili hans í Rauðagerði í Reykjavík. Endurlífgunartilraunir hófust á vettvangi en hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar á Landspítalanum. Lögregla sagði málið á viðkvæmu stigi og varðist allra frétta. Fljótlega greindu fjölmiðlar þó frá því að grunur léki á að hinn látni hefði ekki látist af eðlilegum ástæðum.

Hin látni, Armando Beqiri, var frá Albaníu og bjó hér á landi með óléttri íslenskri eiginkonu sinni og ungu barni þeirra.

Sérsveitin og fólk undir vernd

Lögreglan hélt spilunum þétt að sér og vildi litlar upplýsingar veita fjölmiðlum. Sömu nótt og skotárásin átti sér stað var sérsveitin kölluð til. Var henni falið að heimsækja þá viðbragðsaðila er voru fyrst kvaddir á morðvettvanginn. Var þeim aðilum gert ljóst að engar upplýsingar mættu leka út. Samkvæmt heimildum DV minnast menn þess ekki að hafa fengið heimsókn frá sérsveitinni til áminningar um að gæta trúnaðar og virða þangarskyldu. Sérsveitarmenn séu vopnaðir og ekki huggulegasta heimsóknin. Lögreglan hefur vísað þessum ásökunum á bug en heimildir DV segja að þetta sé raunin.

Mikið álag hefur verið á sérsveitinni frá fyrsta útkalli málsins. Vegna flækjustigs málsins hafi þurft að veita hinum ýmsu aðilum vernd til að koma í veg fyrir hefndaraðgerðir og slíkt kalli á mikinn liðstyrk. Var meðal annars um fjölskyldumeðlimi sakborninga að ræða. Samkvæmt heimildum DV hafa einstaklingar flutt af heimilum sínum, sent börn til ættingja og til að byrja með ekki vitað hvort þeir sem voru fyrir utan gluggann voru lögreglan eða einhver í hefndarhug.

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við DV 26. mars að lögregluvernd komi af og til upp. „Það er þá helst í tengslum við heimilisofbeldi og nálgunarbann. Í tengslum við svona mál höfum við ekki þurft að beita þessu eins og við erum að gera nú. Þetta er að því leytinu nýtt.“ Hann segir að bæði hafi þurft að grípa til þess að fela fólk eða „flytja“ það eins og hann kallar það, og veita vernd með eftirliti eða tækjabúnaði svo sem myndavélum eða staðsetningarbúnaði. Í dag, rúmum tveimur mánuðum eftir morðið, er enn fólk undir vernd lögreglu.

Þessar upplýsingar varpa ljósi á eina af mörgum flækjum málsins sem er það umfangsmesta á starfstíma Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sé horft á málið í þessu samhengi geta einstaklingar sem hafa stöðu sakbornings í Rauðagerðismálinu einnig hlotið stöðu þolanda þegar farið er fram á lögregluvernd til að tryggja öryggi þeirra og fjölskyldna.

Mynd/Sigtryggur Ari

Lekamálið og Toni partýpabbi 

Talið er að Lekamálið svokallaða sé upphafið af valdabaráttunni sem tengist Rauðagerðismálinu. Lekamálið varðaði trúnaðargögn lögreglu og héraðssaksóknara sem unnin voru í tengslum við rannsókn á meintri spillingu lögreglumanns. Sá grunur reyndist ekki eiga við rök að styðjast og var enginn sakfelldur í tengslum við rannsóknina.

Í gögnunum er engu að síðar að finna ítarlegar upplýsingar og vitnisburði tugs nafngreindra einstaklinga. Í gögnunum kemur fram að Anton Kristinn Þórarinsson athafnamaður hafi um árabil verið upplýsingagjafi lögreglu og er því haldið fram að Anton sé vel tengdur í undirheimum Íslands.

Eftir að þessar upplýsingar láku út fóru margir að spyrja sig nákvæmlega hvaða upplýsingar Anton hafi veitt lögreglu og um hvern. Vangaveltur og sögusagnir fóru á kreik meðal annars þess efnis að Anton hafi nýtt sér þetta upplýsingasamband til að koma lögreglu á slóðir annarra í undirheimum, annað hvort gegn friðhelgi eða í þeim tilgangi að halda lögreglunni upptekinni svo þeir væru ekki að fylgjast of vel með honum.

Sjá einnig: „Partípabbi ársins“ sagður vera uppljóstrari lögreglunnar um árabil

Fréttablaðið greindi frá því að eftir lekann hafi Anton átt um sárt að binda og séð sig nauðbeygðan til að safna að sér hópi erlendra manna sér til verndar. Lekamálið skapaði tortryggni og segja heimildarmenn DV að margir þekktir einstaklingar í undiheimum Íslands hafi viljað Antoni illt eftir að lekagögnin litu dagsins ljós. Fóru menn að horfa yfir farinn veg og velta fyrir sér hvaðan lögreglan hafði upplýsingar sínar í gegnum tíðina og hvort Anton hefði mögulega komið kollegum sínum í vanda með upplýsingagjöf. Ástandið sem skapaðist í undirheimum eftir lekann var mjög eldfimt.

Herma heimildir að var einn þeirra sem síðar var handtekinn í tengslum við rannsókn morðsins í Rauðagerði hafi verið hluti af því erlenda vinnuafli sem Anton réði sér til verndar.

 

Eldfimt ástand 

Mynd: Aðsend

Skjáskot voru send fjölmiðlum sem áttu að sýna samskipti milli Antons og þess aðila sem hann grunaði um að standa að baki lekanum. Sá aðili er íslenskur. Ekki er staðfest hvort skjáskotin eru raunveruleg eða tilbúningur óvildarmanna Antons.

Ein skilaboðin hljóðuð svona:

„eg elska eg fyrirgef allt en tetta verdur aldtei bætt upp tetta tjon sem tu ollir mer. tvi miður elsku X minn ta verd eg bara ad gera ter illt. sjaumst i næstu veröld ta geturdu kannski byrjad upp nytt.“

Síðan sendi hann myndir af skilríkjum nokkurra aðila og myndir af manni og skilaboðin „gaur sem er ad biða eftir ter“

Ósannað er að lekamálið og Rauðagerðismálið tengist í raun en það er staðreynd að Anton var handtekinn, sat í gæsluvarðhaldi og sætir í dag farbanni vegna Rauðagerðismálsins.

Nafngreindir í málinu

Armando Beqiri Mynd/Facebook

Hinn látni – Armando Beqiri

Armando Beqiri var 32 ára gamall þegar hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Hann lætur eftir sig, sem áður segir, eiginkonu og barn, en hann átti jafnframt von á sínu öðru barni með konu sinni. Hann kom frá Albaníu en hafði búið hér á landi um árabil. Hann starfaði hjá dyravörslufyrirtækinu Top Guard sem sér um dyravörslu sem og öryggisgæslu. Lögregla hefur greint frá því að grunur leiki á að Armando hafi haft tengsl við skipulagða brotastarfsemi hér á landi og um tíma var óttast að menn tengdir honum myndu hefna fyrir morðið.

 

Angjelin Sterkaj. Mynd: Fréttablaðið, aðsend

Byssumaðurinn – Angjelin Sterkaj

Angjelin Sterkaj hefur játað að hafa orðið Armando að bana í Rauðagerði.  Hann kemur, líkt og hinn látni, frá Albaníu og er fæddur 1986.

Hann átti hlut að hópslagsmálum í miðborginni í september á síðasta ári. Hann starfaði einnig sem dyravörður. Hann steig fram í fjölmiðlum eftir árásina og sagði að um sjálfsvörn hafi verið að ræða en þolandi árásarinnar, Hander Maria de la Rosa, kvaðst í kjölfarið telja sig heppinn að hafa sloppið á lífi, en að hans sögn reyndu árásarmennirnir að stinga hann í höfuðið með hníf. Hann sagði sama hóp hafa ráðist að sér áður.

Angjelin sagðist sárna að Albanir á Íslandi væru vændir um að vera illmenni. Þarna hafi verið um sjálfsvörn að ræða. Í samtali við Fréttablaðið sagði hann: „Málið er að þarna eru dyraverðir sem eru í vinnunni og þess vegna koma þeir í bæinn til þeirra. Ef einhver kemur á inn á vinnustað og kýlir þig í andlitið, hvað myndir þú gera? Þetta var bara sýning og sérstaklega að gera þetta í miðbænum. Ef það eru vandamál milli mín og einhvers myndi ég bara finna hann og berja hann. Af hverju í andskotanum ætti maður að gera það í miðjum miðbænum?“

Angjelin var eftirlýstur af albönskum yfirvöldum vegna ránsbrots sem hann hafði verið fundinn sekur um. Íslenskum yfirvöldum barst beiðni frá albanska dómsmálaráðuneytinu árið 2015 þar sem óskað var eftir því að Angjelin yrði framseldur til Albaníu svo hann gæti setið af sér dóminn. Þeirri beiðni var hafnað tveimur árum síðar, árið 2017.

 

Anton Kristinn Þórarinsson Mynd/pokerdb.thehendonmob.com/

Íslendingurinn – Anton Kristinn Þórarinsson

Anton Kristinn Þórarinsson er 42 ára og hefur ítrekað komið við sögu lögreglu í gegnum árin fyrir fíknefnabrot og smygl. Anton var upplýsingagjafi lögreglunnar á árum áður samkvæmt trúnaðargögnum lögreglu og héraðssaksóknara sem láku út í ársbyrjun. Anton veitti lögreglu upplýsingar er vörðuðu fíkniefnamarkaðinn hér á landi, en sjálfur hefur hann lengi verið grunaður um að vera umfangsmikill sölu- og dreifingaraðili fíkniefna hér á landi. Meðal annars kom fram í áðurnefndum trúnaðargögnum að lögreglan liti svo á að Anton Kristinn hefði lengi verið þekkt nafn í undirheimum Íslands.

Anton hefur sjálfur haldið því fram að hann sé ekki í ólöglegum rekstri og hafi efnast af hinum ýmsu fyrirtækjum sem hann á og rekur þar á meðal verktakafyrirtækin Dverghús ehs og Athos ehf. Samkvæmt ársreikningum fyrirtækjanna er ekkert sem útskýrir dýran lifnaðarhátt Antons, glæsieignir og dýra bíla. Tekið skal fram að umfangsmestu fyrirtækin Athos ehf og Dverghús ehf eru með skráðan töluverðan kostnað sem gæti að hluta til verið launagreiðslur en það kemur ekki fram í ársreikning en ekki er ljóst hver kostnaðurinn er þar sem engin sundurliðun er á honum í ársreikningi Dverghúsa.

Sem dæmi um dýrar eignir sem Anton hefur keypt má nefna einbýlishús á Arnarnesi sem hann keypti í janúar 2020.  Fasteignmat eignarinnar er 146 milljónir króna en samkvæmt kaupsamningi keypti Anton eignina á 110 milljónir króna.

Við undirritun kaupsamnings þann 30. janúar 2020 greiddi hann 90 milljónir með peningum og fékk fasteignina afhenda sama dag restina greiddi hann þann 11. mars eða 20 milljónir með peningum samskæmt kaupsamningi.

Húsið jafnaði hann við grunn og standa nú miklar framkvæmdir yfir á húsgrunninum. Anton, sambýliskona hans og börn búa í leiguíbúð í Garðabæ á meðan á framkvæmdum stendur.

Lögregla kveðst hafa rökstuddan grun fyrir því að Anton hafi átt aðild að morðinu í Rauðagerði. Því sætir hann farbanni í dag.

Verjandinn – Steinbergur Finnbogason

Steinbergur Finnbogason, lögmaður, tók að sér að vera verjandi Antons Kristins í málinu. Við rannsókn lögreglu greindu þó vitni frá því að hafa bæði hitt og rætt við Steinberg vegna málsins, bæði fyrir og eftir að hann var skipaður verjandi og fjarskiptagögn sýndu fram á að Steinbergur hafi verið í samskiptum við aðra sakborninga í málinu, fyrir og eftir að hann var skipaður verjandi.  Taldi lögregla því að Steinbergur gæti búið yfir vitneskju sem gæti skipt máli og félli utan trúnaðarskyldu hans sem verjanda. Þetta þýddi að lögregla vildi fá Steinberg í skýrslutöku og gæti hann því ekki verið verjandi í málinu því hann væri þar með orðinn vitni.

Steinbergur gaf lítið fyrir þessa meiningu lögreglu og taldi að um útspil væri að ræða gagngert í þeim tilgangi að neyða Anton til að skipta um lögmann í miðju máli og skaða þar með hagsmuni hans. Hins vegar staðfestu bæði héraðsdómur og landsréttur ákvörðun lögreglu og Steinbergur má því ekki vera verjandi Antons.

Í úrskurði héraðsdóms segir að þeir sem séu skipaðir verjendur þurfi sjálfir að gæta að hæfi sínu og tryggja að háttsemi þeirra við verjendastörf sé ekki með þeim hætti að hún gefi tilefni til þess að þeir verði kvaddir til að gefa skýrslu í málinu sem vitni. Þar kom einnig fram að meðal þeirra sakborninga sem Steinbergur er grunaður um að hafa verið í samskiptum við sé maður sem sé grunaður um að hafa verið á vettvangi morðsins skömmu fyrir og rétt eftir að hinum látna var ráðinn bani.

Það er ekki oft sem lögregla grípur til slíkra aðgerða en hefur réttlætt hátternið í þessu máli með vísan til þess að verið sé að rannsaka alvarlegt sakamál, morð, og tilgangurinn helgi meðalið.

Samkvæmt heimildum DV hefur það átt sér stað að lögmenn eða verjendur hafi samband við aðra sakborninga, eða vitni, í málum og vísvitandi eða óáfvitandi haft áhrif á framburð þeirra. Hefur það því verið litið tortryggnum augum þegar slík samskipti eiga sér stað enda ástæða að óttast að menn séu að reyna að samræma framburði.

Framvinda málsins

13. febrúar

Armando Beqiri er skotinn níu skotum fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði Reykjavík. Eitt skotið hæfir hann í höfuðið. Viðbragðsaðilar koma á staðinn og hefja endurlífgun en án árangurs. Ljóst er að um saknæma háttsemi er að ræða og  og er Armando lýstur látinn fljótlega eftir að hann er fluttur á Landspítala.

14. febrúar

Tæknideild lögreglu er að störfum fram eftir degi í Rauðagerði. Meðal annars voru notuð málmleitartæki og drónar á svæðinu. Lögregla hefst strax handa við rannsókn málsins. Ekki tók langan tíma að tengja morðið við brotahópa hér á landi.

Fyrstu fréttir berast snemma af málinu og mikill óhugur grípur um sig í samfélaginu og morðið sagt minna á hreina aftöku. Íbúar í nágrenninu tóku eftir miklum umbúnaði viðbragðsaðila og lögreglu. „Manni var brugðið þegar maður kom heim,“ sagði einn íbúi í samtali við DV.

Karlmaður á fertugsaldri er handtekinn í Garðabæ og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. febrúar.Lögregla heldur fast að sér spilunum og verst allra frétta.

Sjá einnig: Óhugur í nágrönnum eftir morðið í Rauðagerði

Maður í næsta húsi við morðvettvanginn ræðir við DV – Fólkið keypti húsið í fyrra

15. febrúar

Greint er frá því að Íslendings sé leitað í tengslum við morðið, síðar reyndist það vera Anton Kristinn. Áfram er óhugur í samfélaginu, en þær takmörkuðu upplýsingar sem lögregla hefur veitt sem og fjöldi ógnvekjandi sögusagna sem um málið ganga benda til þess nýs veruleika á Íslandi.  Dómsmálaráðherra lýsir yfir áhyggjum af aukinni hörku í undirheimum og aukins fjölda tilkynninga um vopnaða einstaklinga.

Myndband fer í dreifingu á samfélagsmiðlum sem sýnir aðila halda á skammbyssu með hljóðdeyfi að skjóta úr henni innanhúss og sögusagnir ganga um að sú byssa hafi verið brúkuð við morðið.

Sjá einnig: Morðið í Rauðagerði talið tengjast baráttu um yfirráð í fíkniefnaheiminum – Lögreglan óttast hefndaraðgerðir

16. febrúar 

Lögregla ræðst í umfangsmiklar aðgerðir. Meðal annars er gerð húsleit á nokkrum stöðum í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Suðurlandi. Þrír aðilar eru handteknir, meðal þeirra Anton Kristinn. Þeir eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 23. febrúar.

Sjá einnig: Meintur uppljóstrari lögreglu handtekinn vegna rannsóknar á morði í Rauðagerði

17. febrúar 

Nafn Armandos er gert opinbert. Áfram er mikill kraftur í rannsókn lögreglu og fjórir til viðbótar eru handteknir og þrír þeirra hnepptir í gæsluvarðhald til 24. febrúar. Fjórða aðilanum, konu, er sleppt úr haldi eftir skýrslutöku.

Sjá einnig: Það sem við vitum um Rauðagerðismorðið – Vikulangt gæsluvarðhald kært

19. febrúar 

Gæsluvarðhald yfir þeim fyrsta sem var handtekinn er framlengt um fimm daga. En eins er áttundi sakborningurinn handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald. Allir handteknu hafa neitað sök í málinu.

Greint er frá því að lögregla hafi haldlagt minnst þrjá bíla, gert húsleit á ríflega tuttugu stöðum og sé að vinna í því að skoða farsímagögn út frá símamöstrum á svæðinu til að freista þess að tengja aðila saman. Talið er að morðvopnið sé skammbyssa en hún er enn ófundin.

Lögregla sagði almenning ekki í hættu vegna málsins en rannsókn þess væri með þeirri stærri í seinni tíð og hafði nær allt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðkomu að rannsókninni með einum eða öðrum hætti

20. febrúar

Áfram fjölgar í fangaklefanum en tveir eru handteknir til viðbótar grunaðir um aðild að morðinu. Annar þeirra er úrskurðaður í gæsluvarðhald sem gerir hann að níunda manninum sem sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins. Ljóst er að málið er gífurlegt að umfangi og mikið mæðir á lögreglu sem heldur áfram þétt að sér spilunum í upplýsingagjöf til fjölmiðla og almennings.

22. febrúar
Lögregla kveðst vera nálægt því að upplýsa um morðið. Gæsluvarðhald yfir þremur sakborningum rennur út og aðeins er úrskurðað um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum þeirra, Antoni Kristni, en hinir tveir eru úrskurðaðir í farbann, sem er vægara úrræði og miðar að því að tryggja að sakborningar flýi ekki land. Flestir hinna handteknu eru að erlendum uppruna og því nokkur hætta á að þeir yfirgefi landið.

24-26. febrúar

Sex þeirra handteknu eru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald. Gæsluvarðhald er veitt á grundvelli rannsóknarhagsmuna, eða með öðrum orðum þá er talin hætta á því að vægari úrræði á borð við farbann henti ekki því mennirnir gætu spillt fyrir, eða reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu.

Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu um rannsókn væri við það að ljúka greinir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn, frá því að málið sé gríðarlega umfangsmikið og langt í land með að rannsóknin klárist.

 

Sjá einnig: Rauðagerðismálið:Segir lögreglumenn ekki sofa og rannsóknin sé enn á byrjunarreit

1. – 8. mars 

Einn sakborninga er þann 1. mars úrskurðaður í farbann til 9. mars og er því laus úr gæsluvarðhaldi.  Degi síðar er Anton Kristinn úrskurðaður í farbann til 30. mars. Ekki er talið að þeir aðilar sem eru komnir í farbann geti spillt sönnunargögnum. Gæsluvarðhald er framlengt yfir fjórum sakborningum, einn til 17. mars, annars til 10. mars, sá þriðji til 31. mars og sá fjórði til 19. mars

9.- 13 mars 

Þann 9. mars var greint frá því að lögregla hefði farið fram á Steinbergur Finnbogason, verjandi Antons Kristins, yrði kallaður til sem vitni í málinu og boðaður til skýrslutöku. Þetta vakti mikla athygli þar sem ef fallist yrði á kröfuna mætti Steinbergur ekki lengur vera verjandi í málinu.

Steinbergur taldi þetta útspil lögreglu til að losna við hann á meðan lögregla bar að hafa rökstuddan grun fyrir því að Steinbergur hefði vitneskju um málið sem hann hefði ekki aflað sér í krafti starfs síns sem verjandi. Hafi hann meðal annars átt í samskiptum við annan sakborning en Anton áður en hann var skipaður verjandi. Bæði Héraðsdómur og Landsréttur féllust á kröfu lögreglu og Steinbergur var ekki lengur verjandi.

Farbann yfir þremur sakborninganna er framlengt til 6. apríl og gæsluvarðhald yfir einum er framlengt um viku og hjá öðrum er það framlengt um fjórar vikur.

Sjá einnig: Lögreglan hafði betur í dómsal og Steinbergur þarf að gefa skýrslu – Fær ekki að vera lögmaður Antons í Rauðagerðismálinu

 18. -19. mars
Lögregla fer þann 18. mars í umfangsmiklar aðgerðir vegna málsins. Húsleit er gerð á sex stöðum í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Fjórir eru handteknir í aðgerðunum. Í aðgerðunum brýtur sérsveit ríkislögreglustjóra upp útidyr í fjölbýlishúsi í miðborginni.

Degi síðar greindi lögregla frá því að hald hafi verið lagt á byssu sem væri talin vera morðvopnið.

24. mars
Tveir sakborninga eru úrskurðaðir í tíu vikna farbann, eða fram til 2. júní. Einn er enn í haldi vegna málsins, annar afplánar eldri dóm og sjö eru í farbanni.

 

Blaðamannafundur lögreglu 26 mars 

Á blaðamannafundi lögreglu þann 26. mars var greint frá því að einn sakborninganna hafi játað á síg morðið. Síðar kom í ljós að umræddur maður var Angjelin Sterkaj. Albani sem hefur búið hérlendis um árabil og hefur starfað við dyravörslu líkt og hinn látni.

Morðvopnið hafi loks fundist með „innsæi og framúrskarandi rannsóknartækni lögreglu“ samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Enginn hafi bent á það og þurfti lögregla að leggja sig alla fram við leitina. Skotvopnið var löglegt her á landi en hafði upphaflega verið stolið frá eiganda. Það fannst í sjó og ekki var ljóst hvort á því væri að finna fingraför eða sýni en það væri til rannsóknar. Skammbyssan var með hljóðdeyfi og .22 kalibera.

Hraktar voru sögusagnir þess efnis að sakborningar í málinu hafi verið fluttir til landsins gagngert í tengslum við þetta morð. Byssumaðurinn hafði verið búsettur hérlendis um árabil. Lögregla tók þó fram að þeir væru taldir tengjast skipulagðri brotastarfsemi.

Lögregla kvaðst hafa haft áhyggjur af því að játningin væri lögð fram á fölskum forsendum, að viðkomandi væri að taka á sig sök, en rannsókn á tölvugögnum og öryggismyndavélum styddu framburðinn og játningin væri því metin sönn. Angjelin neitaði í upphafi sök, eða allt þar til hann var að sögn lögreglu kominn upp við vegg – og morðvopnið fundið.

Ekki væri þó enn búið að taka skýrslu af Steinbergi, en það væri vegna anna lögreglu við rannsókn annara mála.

Talið var líklegt að áfram yrði farið fram á farbann yfir Antoni Kristni en lögregla varðist þess að ræða hvaða hlut hann er talinn hafa átt að málinu. Steinbergur Finnbogason, fyrrum verjandi hans, hefur þó bent fjölmiðlum á að Anton hafi verið úti á landi þegar morðið átti sér stað. Herma heimildir DV að Anton hafi ásamt föruneyti farið í felur strax og hann heyrði af morðinu.

Þrátt fyrir játningu taldi lögregla enn mikið eftir af rannsókninni og minnst tvær til þrjár vikur til viðbótar þyrfti í að rannsaka það.

Lögregla telur sig vita ástæðurnar að baki morðinu en vildu þó ekki gefa hana upp. Þó svo játning liggi fyrir þá séu fleiri grunaði um hlut að málinu sem hlutdeildarmenn eða samráðsmenn. Eins eru einhverjir grunaðir um að tálma lögreglurannsókn. Við húsleitir fundust fíkniefni og vopn og verður einnig ákært fyrir þau brot.

Viss hópur fólks er talinn í hættu vegna málsins og kvaðst lögregla hafa gripið til ýmissa varúðarráðstafana vegna þessa. Ekki var nánar tilgreint hvers konar ráðstafanir vísað var til.

Lekinn á trúnaðargögnunum er talinn tengjast morðinu en þó sé hlutur hans ekki afgerandi.

Rannsóknin hafi verið gífurlega umfangsmikil. Níu ákærendur lögreglu hafi komið að málinu og um hundrað kröfur og greinargerðir höfðu verið gerðar.

Margeir Sveinsson Mynd/Stefán

Rannsóknarhagsmunir tryggðir með takmarkaðri upplýsingagjöf

Margeir Sveinsson,  yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar ríkislögreglustjóra, hefur verið andlit rannsóknarinnar út á við. Hann sagði í samtali við DV þann 16. apríl að ekkert nýtt væri að frétta af rannsókninni.

„Það er bara verið að ganga frá og vinna úr gögnum.“

Hann segir enn ekki ljóst hversu margir af sakborningunum verða ákærðir í málinu og segir lögreglu enn vera með ákveðin verndarúrræði í gangi fyrir aðila í málinu en ekki er hægt að greina frá því hvað í þessum úrræðum felst.

„Þetta er umfangsmikil rannsókn og við erum að sjá þarna nýja hluti og raunveruleika.“

Hann segir að líklega hafi það erfiðasta í rannsókninni verið að gæta þess að festast ekki í ákveðnum þræði heldur skoða þá alla og fylgja öllu eftir. Talað hefur verið um að málið eigi sér enga hliðstæðu hér á landi.

Alls hafa fjórtán aðilar fengið stöðu sakbornings í málinu og segir Margeir það óvenjulegt, ekki bara fyrir manndrápsmál heldur fyrir sakamál almennt.

„Þó við séum að sjá það í öðrum málum sem til dæmis varða skipulagða brotastarfsemi, það er helst í þeim málum sem við erum að sjá þennan fjölda. En í svona máli þá er þetta mjög óvenjulegt.“

Aðspurður hvort að vísbendingar hafi fundist um að greiðslur hafi skipt um hendur í tengslum við málið segist Margeir ekki geta svarað þeirri spurningu.

Spurður út í hvort sérsveit hafi verið send til viðbragðsaðila til að tryggja þögn þeirra um atburði sagðist hann ekkert kannast við það. Liklega sé þar um eina af mörgum sögusögnunum sem um málið hafa gengið að ræða. „Þær eru margar samsæriskenningarnar en þetta er ekki eitthvað sem ég hef heyrt af.“

Varðandi tengsl morðsins og lekamálsins getur Margeir ekkert farið út í það. Það sé bara eitthvað sem lögregla hafi til skoðunar.

„Þeir sem eru grunaðir um málinu, og svo vitum við aldrei hvort einhverjir bætist við, ef við erum að tjá okkur opinberlega um eintaka þætti rannsóknarinnar þá geta menn nýtt sér það til að koma með falskan framburð og það er alveg þekkt, ekki bara í þessu máli heldur almennt í málum hjá okkur og hefur verið í gegnum tíðina. Þá sérstaklega í kringum þessa hópa. Þá er einhver bara settur í það að taka á sig einhverja sök sem hann á ekki og það er meðal annars ein ástæðan fyrir því að við vildum tjá okkur sem minnst um það – vegna rannsóknarhagsmuna.“

Varðandi hinar ýmsu sögusagnir sam hafa gengið að málinu segir Margeir að hann tjái sig almennt ekki um þær eða annað sem komi fram í umræðunni. Það kæmu þá bara aðrar sögusagnir í staðinn og hann hefði þá fullt í fangi við að blása á þær allar.

„Ég hef ekkert verið að tjá mig um það sem er verið að fjalla um eða menn hafa sagt einhvers staðar. Ég læt það bara eiga sig að tjá mig um það. Það myndi þá bara koma eitthvað nýtt og maður væri ekki að gera neitt annað.“

Það er því ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar í málinu. Enn á eftir að gefa út ákærur og óljóst hversu margar þær eru. Þeir orðrómar og sögusagnir sem um málið ganga eru gífulega margir og verður að telja ólíklegt að þeir verði kveðnir niður fyrr en dómur, eða dómar, falla í málinu.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá