„Já, gott fólk. Svona lít ég út.“
Þetta segir Páll Óskar Hjálmtýsson, einn ástælasti söngvari Íslands, í Facebook-færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag. Með færslunni birtir Páll Óskar myndir af sér sem hann hafði sent í trúnaði á annan aðila í gegnum stefnumótaforritið Grindr. Um er að ræða myndir þar sem Páll Óskar er nakinn.
„Fávitinn, sem ég sendi þessar myndir í trúnaði á Grindr og er nú að dreifa þeim út um allt – til að fá mig til að skammast mín fyrir að hafa líkama og lifa kynlífi – er rúmlega 30 árum of seinn!“ segir söngvarinn í Facebook-færslunni. „Njótið vel.“
Páll Óskar bendir þá á nýju lögin sem samþykkt voru á Alþingi þann 17. febrúar síðastliðinn en í þeim kemur skýrt fram að ósamþykkt dreifing á persónulegum myndum varði við lög. Hann birtir svo skjáskot af lögunum.
Ljóst er að fylgjendur Páls Óskars á Facebook eru stoltir og ánægðir með færsluna en honum er hrósað í hástert í athugasemdunum. „Svo mikil negla!!! Svo frábært að senda bara puttann á þetta lið,“ segir til dæmis kona nokkur í athugasemdunum. „Frábært að tala upphátt þvi það getur hjálpað öðrum! Þú er gordjöss,“ segir önnur. „Vel gert hjá þér! Skömmin er ekki þín. Við erum öll kynverur!“ segir svo enn önnur.