Um miðnætti opnaðist ný gossprunga á gossvæðinu á Reykjanesi. Hún er á milli Geldingadala og Meradala. Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að talið sé að sprungan sé á sama stað og björgunarsveitarmenn sáu jarðsig á í gær eða um 420 metra norðaustan við upptakasvæðið í Geldingadölum.
Jarðsigið var um 150 metrar að lengd og 1 meter að dýpt. Eins og er nær sprungan, með tilheyrandi jarðeldi, ekki á milli gíganna tveggja.
Hægt er að fylgjast með gossvæðinu í vefmyndavél RÚV.