Þetta kemur fram á vefsíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Fréttablaðið hefur eftir Þorvaldi Þórðarsyni, jarðvísindamanni hjá Jarðvísindastofnun, að nýja sprungan sé viðbót við gosið. „Það er magnað hraunflæði þarna. Þetta er viðbót á öllu. Það er stöðugt og byrjaði eiginlega nákvæmlega eins og hitt. Kemur upp með engum látum og hraunkvikan flæddi með stöðugu rennsli. Þetta rennsli heldur sér,“ er haft eftir honum.
Hraunið úr nýju sprungunni rennur niður í Meradali en þar hægist á framrás þess en miðað við hversu jafn þrýstingur er á gosinu er líklegt að töluvert mikið hraun muni renna niður í Meradali á næstu dögum, vikum, mánuðum eða jafnvel árum.
Á vef Jarðvísindastofnunar kemur fram að í samanburði við önnur gos sé hraunrennslið lítið en það sé mjög stöðugt. Það er sagt vera um einn þriðji þess var fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi 2010 en það var lítið gos. Rennslið er um 2% af því sem var í Holuhrauni á fyrstu vikum gossins þar.