Töluverður erill var hjá lögreglu í nótt, en í dagbók lögreglunnar er greint frá umferðaróhappi í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Þar ók ökumaður á vegrið, en í kjölfarið var hann fluttur á slysadeild til skoðunar og bifreiðin flutt af vettvangi með kranabíl.
Í Hlíðunum var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa fyrir að brjóta nálgunarbann og hafa í hótunum.
Í Hafnarfirði var maður handtekinn vegna líkamsárásar í garð leigubílsstjóra. Árásarmaðurinn, sem er sagður hafa verið í mjög annarlegu ástandi var vistaður í fangaklefa þar sem hann bíður skýrslutöku. Einnig var brotist inn í geymslur í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði. Þar var ýmsu stolið, meðal annars rafmagshlaupahjóli.
Í Grafarvogi þurfti að reykræsta íbúð eftir að páskalambið var full lengi í ofninum.