Þann 20. febrúar síðastliðinn gaf héraðssaksóknari út ákæru á hendur ónafngreindum og óaldurstilgreindum Reykvíkingi fyrir kynferðisbrot gegn manni með þroskahömlun. Er hann sagður hafa nýtt sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart þolanda sínum sem ekki gat skilið þýðingu verknaðarins. Atvikin eru tvö, annað á að hafa átt sér stað árið 2018 en hitt 2019. Fyrra atvikið átti sér stað í vinnubíl hins ákærða. Ákæruliðirnir eru orðrétt svohljóðandi:
„1. […] 2018 í vinnubifreið, sem ákærði var með til umráða og hafði lagt við óþekktan stað nálægt […], haft endaþarmsmök við A.
2. […] 2019, á […], haft endaþarmsmök við A og haldið áfram að hafa við hann mök þó A hafi beðið hann um að hætta, en af þessu hlaut A 1 cm sprungu og þunna afrifu við endaþarm.“
Auk þess sem héraðssaksóknari krefst refsingar yfir manninum og að hann greiði allan sakarkostnað, þá er einkaréttarkrafa lögð fram fyrir hönd þolandans þar sem farið er fram á tvær milljónir króna í miskabætur.
Aðalmeðferð í málinu verður við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 21. apríl næstkomandi.