fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Viðtal við Jóhannes Þór: Ferðaþjónustan vill ekki stríð um lokun landamæranna – Leiðréttir misskilninginn um opnun landsins

Heimir Hannesson
Mánudaginn 29. mars 2021 13:19

Jóhannes Þór Skúlason mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir eru líklega fáir eftir hér á landi sem ekki hafa myndað sér skoðun á sóttvarnaráðstöfunum yfirvalda í tengslum við Covid-19 faraldurinn. Umræðan er margslungin og kemur víða við.

Fjöldatakmarkanir, tveggja-metra reglan, heimkomusmitgát, sóttkví, litakóðakerfi, PCR-próf, tvöföld skimun, þreföld skimun, engin skimun, Pfizer og Spútnik. Allt eru þetta ný orð eða hafa öðlast nýja merkingu á undanförnu ári. Þegar þetta er svo skrifað hafa 66.156 skammtar af bóluefni verið gefnir á Íslandi og tæplega 21 þúsund Íslendingar verið full bólusettir. Langflestir hafa þeir sem bólusettir hafa verið fengið Pfizer. Nú í apríl mun svo fjórða bóluefnið bætast í þriggja efna flóru og er búist við að bólusetningar muni þá ganga hraðar fyrir sig en hingað til.

Faraldurinn geisar þó enn og eru mörg lönd í Evrópu enn „eld-rauð“ á litakóða Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins. Ísland er enn, og hefur lengi verið, eina græna landið á þeim lista. Nú er hins vegar komið að þeim stað í faraldrinum, að umræðan snýst meira um framtíðina og hvernig skal haga afléttingu takmarkana. Endalokin eru í augsýn, en það þýðir þó ekki að síðustu metrarnir verði átakalausir.

Landamæra aðgerðir umdeildar

Nýverið tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir að þeir íbúar utan Schengen sem hafa verið bólusettir gætu komið hingað til lands án þess að gangast undir fimm daga sóttkví. Ferðaþjónustan kallaði breytinguna „game-changer.“ Í kjölfar upphafs „fjórðu bylgjunnar,“ var gildistöku breytinganna frestað.

Þá var einnig tilkynnt í mars að áðurnefnt litakóðunarkerfi yrði haft til hliðsjónar frá og með 1. maí á landamærum Íslands og þeim sem koma frá grænum löndum ekki gert að sæta sóttkví.

Óhætt er að segja að þessar breytingar leggjast illa í marga og hefur því verið slengt fram að breytingarnar þjóni þörfum ferðaþjónustunnar en ekki almennings. Óumdeilt er að vel hefur tekist að halda faraldrinum niðri hér á landi og Íslendingar lifað nokkuð frjálsu lífi undanfarna mánuði, í hið minnsta miðað við mörg nágrannaríki landsins. Sumir segja að breytingarnar muni tefla þessu áhyggjulausa og frjálsa lífi Íslendinga í hættu.

Tilslakanir á landamærunum misskilningur

Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og er einn þeirra sem hefur verið gagnrýndur fyrir hugmyndir sínar um næstu skref og hvernig haga skuli afléttingu takmarkana. DV tók Jóhannes á tal um framtíðina, átakalínurnar og hugmyndir ferðaþjónustunnar um komandi sumar og haust.

Jóhannes segir það mikinn misskilning að verið sé að slaka á sóttvarnaraðgerðum á landamærunum, þvert á móti segir hann að hert hafi verið á aðgerðum sóttvarnayfirvalda þar undanfarnar vikur og mánuði. „Það eina sem hefur verið gert varðandi sóttvarnaráðstafanir á landamærunum er að herða meira og meira á þeim. Síðast í febrúar þegar krafa um PCR próf var bætt ofan á kröfu um 5 daga sóttkví og tvöfalda skimun,“ segir Jóhannes.

„Það er einnig áhugavert að sjá hvað breytingar sem áttu að taka gildi 1. maí höfðu mikil áhrif strax í mars,“ segir Jóhannes og vísar til þess misskilnings margra að boðaðar breytingar hefðu þegar tekið gildi og að þau smit sem nú greinast væru rekjanleg til þeirra. „Það fannst mér sýna að ekki væri endilega horft mikið í staðreyndir þegar fólk hleypur af stað á samfélagsmiðlunum.“

Jóhannes segir að enn eigi svo að herða aðgerðirnar 1. apríl þegar þeir sem koma frá eldrauðum svæðum samkvæmt litakóðakerfi Sóttvarnarstofnunar Evrópu verða skikkaðir í farsóttahús.

„Mér þykir mikilvægt að benda á að það hefur hvergi verið slakað á neinu í landamæravörslu og við ekki gert neina kröfu um slíkt. Það er ekki hægt að halda því fram að slaki á landamærunum sé að valda vanda hér innanlands,“ segir hann. „Menn geta svo haft á því skoðanir hvernig eigi að haga þessu öllu saman. Gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnarinnar er bara mikilvægur hluti í lýðræðisþjóðfélagi.“

Ferðamenn án tengsla dreifa síður smiti

Strax í fyrstu, vorið 2020, gætti óánægju með aðgerðir ríkisstjórnarinnar á landamærunum. Margir vildu þá strax loka landamærunum á meðan aðrir töldu það glapræði. Inga Sæland var vafalaust fyrsti stjórnmálamaðurinn til að kalla eftir því á sínum tíma, og hlaut hún mikið last fyrir. Fyrstu skrefin sem stigin voru í að hamla frjálsri för ferðamanna um landamærin miðuðu öll að ferðalögum þeirra sem áttu eitthvers konar tengsl við landið. Rökin fyrir því voru að þeir sem voru hér í vinnu og áttu hér vini og fjölskyldu voru talsvert líklegri til þess að smita út frá sér þegar heim var komið.

Jóhannes rifjar þessi orð Þórólfs upp og bendir jafnframt á að þeirra hafi verið getið í skýrslu um árangur og stöðu aðgerða á landamærunum sem yfirvöld gáfu út í desember. „Við hjá SAF höfum verið að benda á að sóttvarnalæknir sjálfur hefur sagt að ferðamenn án tengsla við landið og landsmenn séu mjög ólíklegir til þess að dreifa smitum innanlands og það kemur fram í skýrslu yfirvalda sem byggð er á gögnum um landamæraskimanir,“ segir hann. „Þeir sem eru líklegri til þess að smita eru þeir sem að ferðast á milli landa og hafa hér á landi tengsl við landið. Þeir eru hér í vinnu og hitta vinnufélaga, vini og fjölskyldu. Hvort sem þeir eru íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar og búsettir hér,“ útskýrir hann.

Ofan á þetta bendir hann jafnframt á að SAF búist við lítilli fjölgun ferðamanna þrátt fyrir áherslubreytingar á landamærunum. „Þó litakóðakerfið svokallaða verði tekið hér upp 1. maí er staðan engu að síður sú að öll Evrópa er eldrauð í því kerfi. Það þýðir auðvitað að það verði engin breyting á því þar til þessi lönd í Evrópu ná tökum á faraldrinum. Farþegar frá löndum sem í framtíðinni verða græn eða gul, þeir munu þá geta ferðast hingað til lands án sóttkvíar, en verða eftir sem áður að framvísa PCR prófi frá heimalandi sínu og fara í landamæraskimun hér.“ Jóhannes segir þetta ígildi tvöfaldrar skimunar. Fyrri skimunin verði þá í heimalandi viðkomandi.

Bubbi Morthens á villigötum

Þessi boðaða breyting hins opinbera hefur hlotið mjög mikla gagnrýni. Sóttvarnalæknir, Þórólfur Guðnason og Kári Stefánsson hafa báðir sagst vera henni andsnúnir og aðrir málsmetandi aðilar talað opinberlega gegn áætluninni. Bubbi Morthens vakti svo mikla athygli á orðum sínum um að hætta væri á að ferðamenn fölsuðu PCR prófin.

Jóhannes gefur lítið fyrir hættuna á fölsuðum PCR prófum og bendir þeim sem óttast það að hugsa um málið út frá sér sjálfum. „Ef við, Íslendingar, værum að hugsa um að fara til Tenerife eða Spánar í sumar myndum við hugsa: „Ég er að fara að eyða kannski milljón eða meira í sumarfrí fyrir fjölskylduna. Ætti ég að taka þá áhættu að fara á Internetið og kaupa mér eitthvað svikapróf til að framvísa á flugvellinum.““ Jóhannes bendir á að með því væri sá einstaklingur að taka áhættu á því að sitja uppi á flugvellinum og vera meinað að fara um borð í vélina eða að vera snúið við á flugvellinum á Tenerife. Tapað fé og ónýtt sumarfrí með fjölskylduna er áhætta sem fáir Íslendingar myndu taka, segir Jóhannes. „Hvora leiðina myndum við velja, hér á Íslandi. Auðvitað er það augljóst að yfirgnæfandi meirihluti ferðamanna myndi velja öruggu leiðina, að fara bara í alvöru próf og losna við áhættuna,“ segir hann.

„Af hverju gera menn ráð fyrir því að ferðamenn sem eru að koma frá útlöndum hugsi þetta öðruvísi?“

Átakalínur magnast upp

Aðspurður um átakalínuna milli ferðaþjónustunnar og annarra um sóttvarnaráðstafanir og næstu skref og hvort ekki sé þörf á að vinda ofan af þeim átökum segir Jóhannes svo aldeilis vera. „Það er mjög mikilvægt að ráða málin út frá rökum og skynsemi.“

Talsverð umræða skapaðist á samfélagsmiðlum þegar Jóhannes sagði á samfélagsmiðlum að allir þyrftu nú að passa sig og huga að persónulegum sóttvörnum. Margir tóku því sem svo að hann væri að „færa sökina“ yfir á landsmenn, og virtist fólk meira á þeim buxunum að sökin væri Jóhannesar og ferðaþjónustunnar, enda smitin bersýnilega útlensk að uppruna. Jóhannes segir þessi viðbrögð hafa komið sér mjög á óvart og að hann hafi síðar bent á það á samfélagsmiðlum að Forseti Íslands hafi sjálfur bent á og sagt nákvæmlega sömu hluti. „Þar kristallaðist þessi undarlega brotalína í þessari umræðu,“ segir Jóhannes.

Horfa til síðsumarsins og haustsins

En hvernig sér Jóhannes framhaldið fyrir sér?

„Þessi tími í kringum 1. júlí er dagsetning sem margir horfa til og búast má við að ferðaþjónustan gæti farið að lifna við um það leiti,“ segir hann. „Þó að litakóðakerfið byrji 1. maí þá erum við ekki að búast við að hlutir fari mikið af stað strax þá. Við sjáum það bara á bókunum að það er afar lítið um að vera snemma í vor. Þessi dagsetning, 1. maí, mun litlu breyta um það,“ útskýrir Jóhannes. „Ég held að fólk þurfi ekki að óttast að allt muni fyllast af ferðamönnum strax þá.“

„Allar staðreyndir benda til þess að það muni koma heldur fleiri ferðamenn í sumar en hefðu gert án aðgerðanna, en þeir munu ekki koma fyrr en bólusetningar á Íslandi munu hafa náð töluvert mikilli útbreiðslu,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum