Um klukkan 19 í gærkvöld stöðvaði lögregla bíl í hverfi 105. Farþegi í framsæti hélt þá á um það bil 7 mánaða gömlu barni í fanginu. Þarna voru foreldrar barnsins á ferð með barn sitt og sögðu barnið hafa grátið mikið í barnabílstól sínum. Þá hafði faðirinn sem var farþegi losað barnið úr stólnum og sat með það í fanginu meðan móðirin ók bílnum. Einnig hafi faðirinn ekki verið með öryggisbelti sitt spennt. Skýrsla var skrifuð um málið og tilkynning send til Barnaverndar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir einnig frá því að kl. 23 í gærkvöld var tilkynnt um mann í miðborginni sem var til vandræða og mögulega að skemma bíla. Maðurinn vildi ekki segja til nafns eða segja lögreglu kennitölu sína. Hann var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um mann í Kópavogi sem hafði fallið af reiðhjóli. Maðurinn var með áverka á höfði og blóðugur í andliti og mundi ekki hvað hafði gerst. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar.
Klukkan hálftólf í gærkvöld voru höfð afskipti af ungum manni í annarlegu ástandi í hverfi 112. Ungi maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu, sagði ekki til nafns að kröfu lögreglu, hrækti í andlit lögreglumanns og er grunaður um brot á vopnalögum. Haft samband við forráðamann og Barnavernd og var ungi maðurinn síðan vistaður fyrir rannsókn máls á viðeigandi stofnun.