Smitaður einstaklingur fór á æfingu í World Class Laugum á laugardaginn. Fréttablaðið greinir frá en Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið.
Vegna smitsins hefur mikill fjöldi fólks verið sendur í sóttkví, Jóhann segir að á þriðja tug fólks sé í sóttkví vegna smitsins. „Smitin eru að teygja sig inn í æfingar og íþróttaiðkun og það gerist rosalega hratt. Það hafa ekki margir verið að koma smitaðir úr líkamsræktarstöðvunum núna í raun bara ekkert,“ segir hann. „Smit berast á milli manna sama hvað hann heitir, þó að menn séu að gera allt rétt þá er þetta talsvert mikil áhætta alls staðar.“
Það er þó ljóst að fleiri munu ekki smitast þessa dagana við æfingar í World Class eða öðrum líkamsræktarstöðvum þar sem þeim hefur öllum verið lokað vegna hertra aðgerða og 10 manna samkomubanns sem tók gildi á miðnætti.