Fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og presturinn, Önundur S. Björnsson, fjallar um handtöku og málsókn gagnvart ungri dóttur sinni, Elínborgu Hörpu, í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt pistli Önundar var 27 ára gömul dóttir hans handtekin fyrir brot gegn valdstjórninni á friðsamlegum mótmælum fyrir framan Dómkirkjuna, þar sem meðferð ríkisins á hælisleitendum var mótmælt.
Hún var handtekin allavega fjórum sinnum í mótmælum sem skipulögð voru til stuðnings við flóttafólk á Íslandi. Umrædd mótmæli fóru fram við Alþingishúsið, dómsmálaráðuneytið, á Lækjartorgi og við lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Í vikunni segist Önundur í fyrsta skipti hafa stigið fæti inn í héraðsdóm Reykjavíkur vegna málsins. Hann segir að dóttir sín hafi átt að hafa veitt lögreglumanni líkamstjón, en umræddur lögreglumaður handtók hana ásamt mörgum öðrum lögreglumönnum í umrætt skipti. Lýsing Önundar á handtökunni er óhugnanleg, hún hafi dregin úr hópi mótmælenda, til skiptis á höndum og fótum, og síðan hafi sex lögreglumenn lagst ofan á hana af fullum þunga samtímis.
Önundur tekur þó fram að fyrir dómi hafi lögreglumaðurinn sem varð fyrir meintu líkamstjóni ekki munað hvort eymsli sín hefðu verið í hægri, eða vinstri fæti. Þá hafi hann ekki misst dag úr vinnu vegna þessa meinta líkamstjóns.
„Ég mætti í fyrsta skipti lífs míns í héraðsdóm Reykjavíkur hinn 23. mars síðastliðinn og ástæðan var sú, að dóttir mín, Elínborg Harpa Önundardóttir, var sótt til saka af opinberu ákæruvaldi fyrir meint brot gegn valdstjórninni!
Ofan í kaupið átti dóttir mín, 27 ára gömul, grönn og hógvær, að hafa valdið lögreglumanni líkamstjóni; lögreglumanni sem ásamt fjölda annarra lögreglumanna handtók hana við friðsamleg mótmæli á Austurvelli. Kæruefnið: „eymsli í sköflungi“. Að vísu mundi lögreglumaðurinn ekki í vitnahaldi á hvorum fætinum hann hafði eymsli, enda ekki skrýtið, þar sem hann missti ekki dag úr vinnu, að eigin sögn. Þetta gerðist við friðsamleg mótmæli framan við Dómkirkjuna, hús friðar og sátta, þar sem dóttur minni var kippt út úr hópi mótmælenda og dregin liggjandi, til skiptis á höndum og fótum, þar sem síðan sex lögreglumenn lögðust af samanlögðum þunga yfir hana og færðu í handjárn.“
Sjálfur segist Önundur vera lýðræðiselskandi friðarins maður sem sé stoltur af dóttur sinni fyrir að berjast fyrir mannréttindum. Hann viðurkennir að lögregla hafi í mörg horn að líta, enda færist alvarlegir glæpir í samfélaginu í aukanna, sem verði til þess að þol fyrir mótmælendum minnki.
Hann segist þó ekki skilja hvers vegna yfirmenn lögreglu og ákæruvaldið sjái ástæðu til þess að lögsækja dóttur sína sem var handtekin á ofbeldisfullan hátt.
„Ég er friðarins maður og mér er annt um lýðræði og lýðréttindi. Ég á dóttur sem brennur fyrir réttlæti og réttindi fólks, almenn mannréttindi, ekki síst þeirra sem höllum fæti standa; ól hana upp við þá mannelsku. Þar á meðal hælisleitenda. Hún er virk í þeirri viðleitni sinni og fyrir það er ég þakklátur.
Það kann vel að vera að lögreglumenn hafi lítið þol gagnvart slíkum einstaklingum, enda hafa þeir í ýmis horn að líta, þar sem alvarlegir glæpir í samfélagi okkar hafa því miður farið vaxandi. Nú síðast ofbeldismaður sem ógnað hefur blásaklausri fjölskyldu og engum böndum verður á komið, að best verður séð.
En eitt er það, að handtaka dóttur minnar hafi átt sér stað með líkamlegu ofbeldi, sem var algjörlega ástæðulaust. Hitt er öllu verra, að yfirmenn lögreglu og síðan ákæruvald ríkisins hafi talið sérstaka ástæðu til að sækja mál á hendur dóttur minni og krefjast refsingar fyrir friðsamleg mótmæli, baráttu fyrir réttlæti og frelsi. Myndskeið eru til af þessum atburðum sem taka af öll tvímæli í þessum efnum.“
Önundur minnist þess að málarekstur sem þessi sé ansi dýr fyrir alla aðila og spyr hvort þetta sé það réttlæti sem umrædd valdstjórn sækist eftir.
„Gríðarlegur kostnaður hefur safnast upp við þennan undarlega málarekstur á alla vegu; lögreglustjóraembættisins, ríkissaksóknaraembættisins og síðan fórnarlambsins, dóttur minnar, sem þarf að kosta til löglærða aðila til að taka til varna gegn „verndurum frelsis“ í okkar litla samfélagi. Og ekki má gleyma samfélagskostnaðinum sem fólginn er í tíma saksóknara og þeirra lögreglumanna sem mættu fyrir réttinn, svo fáeinir séu nefndir til leiks.
Er þetta það réttlæti sem valdstjórnin, svokölluð, telur í forgangi til að tryggja öryggi borgara þessa lands?“
Önundur minnist þess ekki að þeir sem mótmæltu í mótmælunum í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi verið sóttir til saka, enda hafi ekki verið ástæða til. Nú aftur á móti séu skyndilega gerðar harðar kröfur á fólk sem sé stefnt fyrir fyrir dómstóla fyrir skoðanir sínar. Hann spyr hver staðan sé á réttlæti landsins þegar dóttir hans gæti verið dæmd sek fyrir að berjast fyrir réttlæti hælisleitenda og flóttafólks.
„En nú bregður svo við, að afleiðingar friðsamlegra mótmæla og háttvísra eru skyndilega þess eðlis, að gerðar eru harðar kröfur á fólk og því stefnt fyrir dómstóla og krafist peninga og jafnvel fangelsunar, vegna skoðana fólks og vilja til þess að réttlætið nái fram að ganga gagnvart okkar minnstu bræðrum og systrum; hælisleitendum og fólki á flótta.
Ég spyr: Hvert er réttarfar okkar komið og hvert stefnir það, verði dóttir mín dæmd sek fyrir réttlætis sakir?“
Að lokum segist honum ofbjóða ástandið, ekki bara vegna dóttur sinnar heldur vegna þess að valdi sé misbeitt gegn þeim veiku. Hann segist ekki vilja sjá slíkt samfélag og flestir Íslendingar séu honum sammála.
„Ég skrifa þessa grein vegna þess að mér ofbýður. Ekki bara vegna dóttur minnar heldur vegna þess, að hér er verið að misbeita valdi þess sterka gegn hinum veika. Þannig samfélag vil ég ekki sjá. Og ég er viss um að stór meirihluti Íslendinga er mér sammála.“