Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að þeir nágrannar sem Fréttablaðið ræddi við hafi verið sammála um að lítil prýði sé af því fyrir hverfið að hafa hjólhýsi eða gúmmíbát í portinu.
Í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins segir að farið hafi verið í eftirlitsferð 27. október og aftur 30. nóvember til að kanna hvort búið væri að hreinsa ruslið. Þá hafi aðeins verið búið að hreinsa hluta af lausamunum og úrgangi.
Enn á ný var kvartað í febrúar og var þá aftur farið í eftirlitsferð. „Enn var ekki búið að hreinsa lóðina, þvert á móti var búið að bæta úrgangi og lausamunum við. Á lóðinni mátti finna fjórar til sex þvottavélar ásamt vélarhlut úr þvottavél, ísskápa, lítinn bát, járnagrindur, dekk, slöngur, timbur, plast og annan almennan úrgang,“ segir í bréfinu.
Var eigandanum þá veittur lokafrestur til 17. febrúar. Nú er mælirinn greinilega orðinn fullur og því hafa dagsektir verið lagðar á eigandann.