Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari Torgs af örtröð á Suðurstrandarvegi þar sem margir freista þess að komast að eldgosinu í Geldingadal áður en svæðið verður rýmt kl. 17. Vefur Hringbrautar greinir frá þessu. Myndirnar voru teknar á þriðja tímanum í dag.
Lögregluþjónar við Suðurstrandarveg eru sagðir nánast orðlausir yfir þeim mikla fjölda sem lagt hefur leið sína að gosstöðvunum í dag. Hefur lögregla hvatt ökumenn til að leggja bílum sínum hægra megin við vegkantinn til að tryggja rými fyrir björgunarsveitarbíla ef um neyðarakstur er að ræða. Ekki hafa þó allir farið eftir þessum fyrirmælum, segir í fréttinni.
Spáð er lífshættulegri gasmengun við eldgosið í kvöld. RÚV greinir frá því Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hvetji fólk til að yfirgefa gossvæðið fyrir kl. 17 í dag.