CrossFit-kappi á þrítugsaldri, sem úrskurðaður var í Landsrétti í gær í gæsluvarðhald til 15. apríl, var handtekinn laust fyrir kl. 14 í dag. Hann átti að mæta til afplánunar gæsluvarðhalds í gær en lét ekki sjá sig og fannst ekki. Lögregla hefur nú handtekið hann, samkvæmt öruggum heimildum DV.
„Maðurinn er grunaður um frelsissviptingu, ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, hótanir og eignaspjöll. Ætluð brot mannsins voru framin á rúmlega þriggja og hálfs mánaða tímabili, eða frá því í lok nóvember á síðasta ári og fram í miðjan mars á þessu ári. Þá hefur viðkomandi stöðu sakbornings í sex öðrum málum, sem eru til meðferðar hjá lögreglu,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar um gæsluvarðhaldið í gær.
Maðurinn er sakaður um að hafa brottnumið, frelsissvipt og misþyrmt syni Svölu Lindar Ægisdóttur í nóvember síðastliðnum. Hann hefur síðan, að hennar sögn, margoft ofsótt fjölskylduna, meðal annars með símtölum þar sem hann hótar líkamsmeiðingum og lífláti.
Hann var úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart fjölskyldunni. Þann 16. mars er hann talinn hafa stórskemmt bíl Svölu þar sem honum var lagt fyrir utan heimili hennar. Hún hefur margoft kallað eftir því að hann verði úrskurðaður í síbrotagæslu. Í kjölfar þessa atviks krafðist lögreglan gæsluvarðhalds yfir manninum en héraðsdómur varð ekki við þeirri kröfu. Landsréttur sneri þeim úrskurði við og úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 15. apríl.