Óvenjuleg tilkynning hefur verið birt í íbúahópum á Facebook frá veitingastað Subway í Mosfellsbæ. Þar er játuð ámælisverð framkoma við tvo barnunga drengi og lýst eftir þeim svo hægt sé að bæta þeim upp slæma upplifun sem þeir urðu fyrir á staðnum.
Í tilkynningunni segir:
„Vökull viðskiptavinur sagði okkur sögu af vægast sagt vondri upplifun tveggja ungra drengja af þjónustunni hjá okkur. Við erum miður okkar og langar að bæta þeim þetta upp en vandinn er sá að við vitum ekki hverjir þeir eru.
Um var að ræða tvo á að giska tíu ára drengi sem voru spariklæddir. Þeir voru í Subway í Mosó um klukkan 14 á laugardaginn.“
Segist Subway leita á náðir íbúa í Mosfellsbæ um að hafa upp á þessum tveimur drengjum.
Ekki náðist í Subway við vinnslu fréttarinnar.