Sigurður Már Jónsson blaðamaður segir að yfirvöld eigi að auðvelda fólki aðgengi að gossvæðinu í Geldingatal en ekki halda fólki frá því. Þetta kemur fram í pistli hans á mbl.is. Sem stendur er fólki ráðlagt frá því að koma að svæðinu og aðgangur bannaður í orði kveðnu en þó eru engar eiginlegar aðgangshömlur á svæðinu, enda erfitt um vik. Óhagstætt veður og hætta á gosmengun eru sagðar ástæður fyrir lokuninni.
Sigurður furðar sig á lokun Suðurstrandarvegar og segir að gera hefði átt almenningi kleift að aka nær gosstaðnum. Þess í stað hafi fólk þurft að ganga margra kílómetra leið að óþörfu:
„Auðvitað á fólk rétt á að skoða svona náttúruundur og eðlilegt er að fara fram á að þeir aðilar sem fara með aðgengismál þarna auðveldi fólkinu aðkomuna. Þar er átt við lögreglu, almannvarnir og Vegagerðina. En nú bregður svo við að það er eins og það hafi ekki verið neinn skilningur á því að almenningur vildi skoðað þetta um helgina og lítið gert til að auðvelda fólki aðkomu. Þeir sem fóru þarna í gær virðast sammála um að ef fólki hefði verið leyft að fara með bíla inní Nátthaga og leggja þar hefði verð hægðarleikur fyrir flesta að ganga þaðan upp að eldgosinu, sérstaklega á meðan vindáttin er hagstæð. Með smá skipulagi ætti að vera hægt að koma fyrir mikið af bílum í Nátthaga. Þaðan er auðveldur gangur upp að gossvæðinu. Leiðin er ekki nema um tveir kílómetrar og hækkun ekki nema 100 metrar. Þarna er allt þurrt og hættulaus gönguleið segja menn kunnugir svæðinu.
Því í ósköpunum var þetta ekki gert? Og af hverju var Vegagerðin að loka Suðurstrandarvegi sem gerði það að verkum að fólk varð að leggja bílum sínum langt í burtu og ganga langa leið að óþörfu? Þannig voru margir að ganga 10 til 12 kílómetra að gosinu þegar hægt var að fara á að giska tveggja kílómetra leið úr Nátthaga, nú eða heldur lengri leið frá þjóðveginum. Og eiga svo eftir að ganga til baka, það er himinn og haf á milli þess að ganga 5 kílómetra eða 20 til 25 kílómetra fyrir venjulegt fólk.“
Sigurður segir að dapurlegt sé að lesa frásagnir fólks sem hafi villst við að ganga margra kílómetra leið að óþörfu, sumir hafi örmagnast og þurft á aðstoð björgunarsveitafólks að halda. Þetta hafi verið óþarfi.
Að mati Sigurðar hefðu þeir sem höfðu umsjón með svæðinu átt að geta sitt besta til að auðvelda fólki að komast að gosinu. Vel sé mögulegt að gera flestum sem hafa áhuga kleift á að sjá þetta náttúruundur:
„Hefði ekki verið skynsamara ef þessir aðilar sem áttu að hafa umsjón á svæðinu hefðu gert sitt besta til þess að auðvelda fólki aðkomu með samræmdum og skynsömu aðgerðum sem hefðu verið vel auglýstar í samstarfi við fjölmiðla? Um leið þarf að gefa góðar upplýsingar um öryggismál en ef leiðin er stutt er síður hætta á að slys verði. Augljóslega mun verða áhugi á gosinu á meðan á því stendur. Því er skynsamast að útbúa bílastæði eins nálægt gosinu, stika og merkja gönguleiðir og hafa eftirlit á svæðinu. Brýnast er að fylgjast með gashættu en þar skiptir veðurfar mestu. Ef þetta er gert þá ætti að vera unnt að tryggja að sem flestir sæju þetta náttúruundur. Um leið ætti að vera hægt að tryggja aðgengi ferðamanna að þessu en augljóslega verða gosstöðvarnar með mikið aðdráttarafl á næstunni.“