Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Karli Óskari Þráinssyni, formanni Foreldrafélags Fossvogsskóla, að foreldrarnir hafi séð útfellingar á plötuskilum, þrútnar loftaplötur og kíttistauma á milli loftplatna. Þetta gefi til kynna að eitthvað mikið hafi gengið á. Hann sagði að einn starfsmaður skólans, hið minnsta, hafi fundið fyrir einkennum í húsinu.
Haft er eftir honum að viðbrögð Reykjavíkurborgar hafi verið að loka umræddum rýmum og að þau séu ekki notuð. „Við vitum ekki hvort þetta eru virkar rakaskemmdir, en það sem slær mann er að okkur er sagt að þetta sé leki síðan 2018, sem gert hafi verið við, en enn standa vegsummerkin eftir,“ er haft eftir honum.
Hann sagði þetta ekki mjög traustvekjandi, hvorki hvað varðar Korpuskóla eða þær viðgerðir sem hafi verið gerðar í Fossvogsskóla á undanförnum árum.
Tvisvar hefur leki komið upp í Korpuskóla en hann þarf ekki að standa lengi yfir til að mygla nái fótfestu og breiðist út með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk. Hún getur síðan setið eftir í efni sem ekki er fjarlægt að loknum viðgerðum en dauð mygla getur einnig verið heilsuspillandi. „Svo maður spyr sig í hvers konar húsnæði sé verið að flytja börnin okkar. Borgin fullvissar okkur um að þar hafi ekki verið ræktuð upp nein myglusýni, en við vitum svo sem ekki hversu oft það hefur verið gert,“ er haft eftir Karli.