fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fréttir

Helgarviðtal: Jón Ásgeir Jóhannesson er kjötiðnaðarmaðurinn í kristalsalnum – „Hefði kunnað meira á Formúlu 1 en bankarekstur“

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 21. mars 2021 08:00

Jón Ásgeir Jóhannesson mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Ásgeir Jóhannesson er aftur farinn að láta að sér kveða í íslensku viðskiptalífi. Hann horfir um öxl í nýrri bók og kallar það sem áður gekk á sinn fyrri hálfleik. Hann segist smámunasamur verslunarmaður inn við beinið sem njóti sín best á jörðinni og viðurkennir að hafa verið ótrúr Bónus-uppruna sínum í góðærinu.

Jón Ásgeir Jóhannesson segist í grunninn vera rekstrarmaður sem nýtur sín best í vélarrúmi fyrirtækjanna, „á kafi í smáatriðunum“, og ekkert af því sem á hefur gengið hefur fengið því breytt. Jón hóf feril sinn í „bissness“ sem strákur á gólfinu hjá SS þar sem bæði afi hans og pabbi störfuðu. Jón fór síðar í Versló, lærði kjötiðn og sá vafalaust framtíð sína fyrir sér í fjölskyldubransanum – verslunarrekstri.

Hann vissi það kannski ekki þá, en hans beið þá mikil rússíbanareið sem Jón segir að hafi aðeins verið hans fyrri hálfleikur.

Úr kjallara fyrstu Bónusverslunarinnar í Skútuvogi skipulögðu feðgarnir Jón og Jóhannes Jónsson, oftast kallaður Jóhannes í Bónus, uppbyggingu verslunarvelda sinna. Síðar sameinuðu þeir Bónusveldi sitt Hagkaupsveldinu og stofnuðu innkaupafyrirtækið Baug. Það nafn átti eftir að festa sig tryggilega á spjöld sögunnar.

Við Baug bættust svo nöfn eins og Hamleys, Fréttablaðið og DV, Magasin Du Nord, Formúluliðið Williams, FL Group, Glitnir og svo auðvitað Davíð Oddsson – mest nefndi maðurinn í nýútkominni bók Jóns; Málsvörn.

mynd/Sigtryggur Ari

Enginn „sorry-túr“

Nú, 32 árum eftir að Jón stofnaði Bónus og 13 árum eftir hrun, segir Jón Ásgeir sögu sína í fyrsta sinn og leggur sína „málsvörn“ fram í heilu lagi. Bókinni hefur Jón svo fylgt eftir með viðtölum við fjölmiðla og ekki er laust við að einhverjir gætu spurt hvað honum gangi til með þessu öllu saman.

Skyldi hér vera á ferð tilraun til syndaaflausnar? Eru Íslendingar að sjá „sorry-túr“ Jóns Ásgeirs Jóhannessonar?

„Nei,“ segir Jón með semingi. „En þetta er uppgjör. Þarna kemur líka fram sýn á málin sem hefur ekki komið fram áður. Mín hlið. Þegar þú lest þetta saman, þessa heildarmynd af því hvernig kerfið hefur látið, verður öll sagan miklu skýrari.“

Þarna gætir strax ákveðinnar kergju í rödd Jóns, og skal engan undra. Jón þurfti að sæta því að vera miðpunktur sakamálarannsókna og dómsmála svo til óslitið í rétt tæpa sex þúsund daga. 16 og hálft ár. Í lok árs 2019 neitaði Hæstiréttur að taka Aurummálið svokallaða til umfjöllunar og lauk þar með síðasta máli yfirvalda gegn Jóni Ásgeiri. Varð þá jafnframt ljóst að hann yrði ekki sakfelldur í neinum „hrunmálum“. Daginn hefur Jón kallað „freedomday“.

Fyrsta brotið sem landsmenn sáu úr nýrri bók Jóns Ásgeirs fjallaði um Gunnar Smára Egilsson og störf hans fyrir Jón. Gunnar var á „góðæristímanum“ forstjóri fyrirtækisins 365 Media Scandin – avia sem stofnaði og gaf út fríblað í Danmörku. Í bókinni er Gunnar sagður hafa „helst ekki nennt til Danmerkur nema að fá undir sig einkaþotu“. Aðspurður hvort þetta hafi verið meðvitað skot á fyrrverandi samstarfsmann sinn, sem nú er formaður Sósíalistaflokksins, segir Jón svo ekki hafa verið. „Nei, alls ekki. Við vorum ágætis samstarfsmenn framan af, ég og Gunnar.“ En U-beyja fyrrverandi kollega hans í lífsskoðunum virðist þó ekki dulin Jóni. „Það var ekki ég sem kom til baka með miklum látum eftir hrunið og hafði uppi miklar svívirðingar.“

Og Gunnar var ekki einn um það, segir Jón. Sitt sýndist auðvitað hverjum í kjölfar atburðanna haustið og veturinn 2008 og stigu fjölmargir fram með ýmsar skoðanir um hvernig framhaldið ætti að vera hér á landi. Nema Jón. Þvert á móti má eiginlega segja að Jón hafi dregið sig úr sviðsljósinu með öllu. Jón segir að þar hafi dómsmálin gegn sér spilað stærra hlutverk en áður hafi komið fram. Síðasta viðtal Jóns á þessum tíma var eftirminnilegt viðtal Egils Helgasonar við hann í Silfri Egils um miðjan október 2008. Aðeins örfáum dögum eftir ríkisvæðingu Glitnis. Jón kallaði ríkisvæðinguna „stærsta bankarán sögunnar.“

Eftir viðtalið hvarf Jón svo til af sjónarsviðinu, þó að hann taki ekki alveg undir það.

„Ég fór kannski ekki alveg undir stein, en þegar þú lendir í áföllum, þó það komi ekki fram opinberlega, þá er maður á fullu að berjast og það kemst lítið annað að,“ segir Jón.

Tók þetta á?

„Já,“ svarar Jón strax, en lætur þar við sitja.

Svo kom „freedom-day“. Leið þér þannig? Eins og þú værir loksins frjáls?

„Já,“ skýtur hann aftur strax að. „Það vita allir sem standa í rannsókn, sem eru með ríkið og ríkisstofnanir með allt það vald sem þeim fylgir á eftir sér, að því fylgir ákveðinn kvíði. Þú veist aldrei á hverju þú mátt eiga von. Það verður erfitt að skipuleggja framtíðina sína og ríkisvaldið hefur svo mörg tól og tæki til að bregða fyrir þig fæti,“ segir Jón. „Þú ert alltaf að hugsa um það. Alltaf.“

Hefði kunnað betur á Formúlu 1

Í áðurnefndu viðtali við Egil Helgason í október 2008 þjarmaði Egill fast að Jóni og spurði meðal annars hvort hann ætlaði ekki taka neina ábyrgð á hruninu. „Ég er til í að taka á mig sanngjarna ábyrgð,“ svaraði Jón. Aðspurður hvort það hafi raungerst að hann hafi tekið á sig sanngjarna ábyrgð á efnahagshremmingum Íslendinga haustið 2008 segir Jón svo vera. „Ég held að allir hafi nú tekið sína ábyrgð á sínum málum. Menn töpuðu gríðarlegu fé og það var enginn að leika sér að því. Það vildi enginn kom sér í þessar aðstæður. Ef menn hefðu vitað hvað væri í vændum hefðum við auðvitað selt allt árið 2007 og farið að gera eitthvað annað.“

Ein mistökin sem Jón hefur einmitt viðurkennt upp á sig er að hafa verið of ragur við að selja eignir. Meiri áhersla hafi verið lögð á að kaupa þær.

Í bók sinni segir Jón það jafnframt hafa verið mistök að fjárfesta í geirum sem hann hafði litla sérfræðiþekkingu á og nefnir Glitni sérstaklega sem dæmi í þeim efnum. Aðspurður hvort það hafi verið fleiri svið sem hann var kominn inn á án þess að eiga heima þar, jafnvel Formúlu 1 liðið, segir Jón svo ekkert endilega vera. „Ég var náttúrulega ekkert kominn af stað í kaupin á Formúlu 1 liðinu, en ég hugsa að ég hefði skilið það betur en bankastarfsemi,“ segir Jón og hlær.

Endurkoman og seinni hálfleikur

Sem fyrr segir upplifir Jón að seinni hálfleikur sinn sé nú að hefjast, en lítur hann svo á að sömu reglur gildi í seinni hálfleik og giltu í þeim fyrri?

„Ég er ekki að fara í neinn uppbyggingaræsing neitt. Ég átti kannski frekar við að ég væri frekar að taka seinni hálfleikinn með þroska og reynslu úr fyrri hálfleik.“

Ertu að snúa aftur úr útlegð?

„Nei, ég var ekki í neinni útlegð. Ég var alltaf hérna á Íslandi með annan fótinn,“ segir hann.

Endurkoma Jóns í íslenskt viðskiptalíf má segja hafi formgerst með framboði hans til stjórnar Haga árið 2019 og svo yfirtökutilboði í Skeljung. Framboðið reyndist dauðadæmt og aðeins um 2 prósent hluthafa í Skeljungi tóku yfirtökutilboði Jóns.

Nú ertu kominn af stað í íslenskt viðskiptalíf aftur, en virðist misvel tekið af kollegum þínum í bransanum. Tengist þessi óvild sem þú mætir þinni persónu?

„Nei, ég held að við höfum bara verið að gera hluti sem hafa ekki verið gerðir á Íslandi áður og ég hef verið í góðu sambandi við aðra hluthafa, til dæmis í Skeljungi.“

Óvildin tengist ekki þinni persónu?

„Nei, nei.“

Þegar fyrir lá að mikill meirihluti hluthafa í Skeljungi myndi ekki taka tilboði Jóns þakkaði Jón þeim traustið og sagðist gera því skóna að þeir hefðu trú á stefnu og áætlunum Jóns um rekstur fyrirtækisins og, á einfölduðu máli, hefðu viljað vera með. Hluthafarnir sjálfir sögðu að tilboðið hefði bara verið of lágt.

Hvað sem því líður var ljóst að nærvera Jóns Ásgeirs í íslensku viðskiptalífi myndi ekki fara fram hjá neinum.

Því hefur verið fleygt fram að það fylgi því orðsporsáhætta að hafa þig með í rekstri fyrirtækja. Það var til dæmis notað í tengslum við tilboð þitt í Haga um árið.

„Jú, mér var sagt að mér fylgdi orðsporsáhætta.“

Tókstu því persónulega?

„Að sjálfsögðu.“

Heldur þú að kollegar þínir í viðskiptalífinu upplifi enn orðsporsáhættu af því að hafa þig með?

„Nei, ég held að svo sé ekki. Þetta var vinsælt orð hérna rétt eftir hrun. Ef menn höfðu engin önnur svör við því sem við vorum að segja, þá gripu menn í þetta orð,“ segir Jón kíminn á svip. „Þetta var notað miskunnarlaust, til dæmis í Hagamálinu. Við buðum miklu hærra verð í hlutinn en bankarnir sögðu samt nei. Bankarnir töpuðu rosalegu fé á því og maður hlýtur að spyrja sig, hvar var umboðssvikalöggan þá?“

mynd/Sigtryggur Ari

Saknar ekki vörubrettaímyndarinnar

Það var ekki alltaf svo að „orðsporsáhætta“ væri sögð fylgja nærveru Jóns Ásgeirs. Því er til dæmis lýst í bókinni að þeir feðgarnir lögðu mikið upp úr því að koma sér upp orðspori sem samsvaraði rekstri Bónuss. Þeir feðgar keyrðu um á sendiferðabílum merktum bleika Bónusgrísnum og sáust iðulega sjálfir á gólfinu að raða í hillur í verslunum sínum. Feðgarnir voru kallaðir „bestu vinir litla mannsins“ í fjölmiðlum og voru kosnir viðskiptamenn ársins í tímaritinu Frjáls verslun. Ljóst er að þessi ímynd stökkbreyttist svo á góðæristímabilinu. Snekkjur og einkaþotur passa vafalaust illa inn í vörubrettaímyndina.

Aðspurður út í þessa stökkbreytingu tekur Jón strax upp hanskann fyrir Bónus: „Það breytir því ekki að Bónus var alltaf og hefur alltaf verið trúr sínum uppruna.“

En þú? Varst þú trúr þínum uppruna?

„Eins og kemur fram í bókinni tel ég að við höfum farið aðeins fram úr okkur.“

En þessi upprunasaga, langar þig aftur í hana? Þetta gamla mannorð. Langar þig að verða maður fólksins aftur?

„Ég held nú að það sé ekkert keppikefli hjá mér að komast aftur í kristalsalinn í Skútuvogi,“ segir Jón og glottir. „Það var nú ágætt að vera þar samt.

„Pabbi sagið alltaf: „Gróði en ekki græðgi,“ og það var mikill sannleikur í því. Við urðum að vera með hagnað, en við vorum oft með tækifæri til þess að taka risa álagningu en gerðum það ekki. Á því byggðist þessi Bónus-hugsjón.“

Svo kom nokkurra ára tímabil þar sem þú gerðir það ekki.

„Já, við fórum þarna í stærri mál og uppruninn gleymdist,“ viðurkennir Jón.

En áfram stendur spurningin: Langar Jón aftur að verða „maður fólksins“?

„Ég gaf út þessa bók vegna þess að ég vildi að þessi saga væri til, en í henni felst enginn „glory-viðsnúningur“. Maður veit ekkert hvað maður gerir í framtíðinni en ég er ekki á neinum „sorry-túr“ hér. Þetta er fyrst og fremst bara upplýsingatúr þar sem ég fæ loksins að stíga fram með mína sýn á þessi mál.“

Tóku líkið fram yfir

Jón tekur undir það að álit almennings hafi sveiflast gríðarlega í gegnum árin. „Fyrst vorum við alveg rosalega vel liðin, svo ekki,“ segir Jón.

En hvernig sér Jón stöðuna í dag fyrir sér?

„Ég upplifi það að almenningur sé tilbúnari til þess að heyra að það eru kannski tvær hliðar á þessum málum og skilningurinn á því sem gerðist og er að gerast er að vaxa og fleiri eru að sjá að í lýðræðisríki eiga svona hlutir einfaldlega ekki að gerast,“ segir Jón.

„Þegar maður fer með mál fyrir Samkeppniseftirlitið, þá byrjar bara stoppklukka. Þú leggur mál inn og stofnunin hefur bara X tíma til að svara. Í Noregi er svipað uppi á teningnum hvað varðar sakamál. Hér er engin klukka á neinu og hægt að draga menn út í hið óendanlega,“ segir hann. „Í eitt skipti vorum við að velta því fyrir okkur af hverju við höfðum ekkert heyrt frá þeim [yfirvöldum] í einhvern tíma. Þá fengum við að vita að það hefði fundist lík í höfninni í Neskaupstað og allir væru uppteknir í því. Á meðan þurftum við bara að bíða.“

En núna er þetta búið, ekki satt?

„Jú, þetta er búið hjá mér en kerfið er áfram svona. Það er auðvitað þannig að ef þú ert ekki búinn að finna glæpinn á þremur árum, er þá ekki bara líklegt að það hafi enginn glæpur verið framinn? Þetta er bara ekki í lagi svona.“

Jón segist ekki bera neinn kala til einstakra manna. Kerfið verði þó að taka breytingum. „Ég man eftir því að Halldór Blöndal sagði við okkur feðga einhvern tímann að eitt kjörtímabil dygði ekki mönnum til að koma málum í gegnum embættismannaklíkuna. Hann þyrfti að minnsta kosti tvö kjörtímabil í sama ráðuneytinu til þess að koma sínum málum í gegn.“ Jón segist í þessu samhengi hafa fylgst með tilraunum Áslaugar Örnu til þess að koma breytingum á áfengislöggjöfinni í gegnum „kerfið“ og segir ljóst að þar mæti hún mikilli andstöðu manna sem vilji engu breyta.

Það vekur athygli blaðamanns að Jón taki embættisfærslur Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem dæmi, en aðstoðarmaður Áslaugar er einmitt Hreinn Loftsson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs og síðar lögmaður fyrirtækisins í Baugsmálunum svokölluðu. Mikið er rætt um Hrein í bókinni og hafa sumir gengið svo langt að segja að í bókinni felist ekki síður uppreist æru Hreins en Jóns Ásgeirs.

„Ég veit það nú ekki, ég hef ekki verið í miklu sambandi við Hrein síðan á Baugsárunum, en Hreinn er maður með sterkar skoðanir og sterk prinsipp. Ég hitti hann af og til, en við erum ekki í miklu sambandi,“ segir Jón aðspurður um samskipti sín við Hrein undanfarin ár.

Þeir sem grannt fylgjast með stjórnmálum kunna að hafa tekið eftir því að eitt fyrsta stórverk Áslaugar Örnu í embætti var að losa Harald Johannessen úr stóli ríkislögreglustjóra. Haraldur kom að rannsókn Baugsmálanna á sínum tíma.

„Sá hann ekki bara um það sjálfur? Þegar allt lögreglulið landsins er komið upp á móti þér og búið að kvitta undir að það gangi ekki upp?“ spyr Jón.

Þó að Haraldur hafi komið að Baugsmálinu var það nú samt svo að rannsóknin var af mörgum, ef ekki flestum, talin runnin undan rifjum Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og eru fáir nefndir jafn oft á nafn og Davíð í bók Jóns Ásgeirs. Þar segir enn fremur að Davíð hafi „fengið Jón Ásgeir á heilann“ og sagði Einar Kárason, höfundur bókarinnar, í viðtali á Rás 2 að samskipti Davíðs og Jóns Ásgeirs gegnum Baugsmálið, „bolludagsmálið“, hrunið og eftirmála þess vera „rauðan þráð“ í bókinni.

Nú er bókin komin út og lítið hefur farið fyrir málsvörn Davíðs vegna Málsvarnar þinnar. Er áhrifatíð Davíðs Oddssonar í íslenskum stjórnmálum liðin?

„Ég veit það ekki, ég held nú að yngri hluti Sjálfstæðisflokksins telji svo vera. Það er kannski ekki mitt að dæma, en það er bersýnilega allt annar andi í flokknum. Hann er þó áfram ritstjóri næststærsta dagblaðs landsins og hefur eflaust áhrif í gegnum það.“

Þannig að bókin er ekki hugsuð sem nagli í líkkistu pólitískrar arfleifðar Davíðs?

„Nei,“ segir Jón. „Ég er bara að varpa ljósi á ákveðna hluti. En það hefur auðvitað sýnt sig að það er ekkert rosalega hollt að menn séu lengi í æðstu valdaembættum. Ég held að bókin undirstriki það.“

Þvertekur fyrir bein afskipti af fjölmiðlum

Eina blaðið sem er stærra en Morgunblað Davíðs Oddssonar er Fréttablaðið sem Jón Ásgeir átti sjálfur lengi vel.

„Ég hef komið við sögu í fjölmiðlum,“ segir Jón og hlær þegar talið berst að afskiptum hans af íslenskum fjölmiðlum í gegnum árin.

Mörgum hefur gengið illa að skilja hvernig fjárfestar í bransa sem gengur út á að skila hagnaði geti réttlætt fjárfestingar í fjölmiðlum sem sjaldan ef nokkurn tímann skila gróða. Jón Ásgeir hefur gefið þá skýringu á kaupum sínum á íslenskum dagblöðum í gegnum tíðina að með því hafi hann tryggt fyrirtækjum sínum auglýsingapláss og þannig tryggt að tap af rekstri fjölmiðils í hans eigu komi fram í bættum hag auglýsenda blaðsins, sem jafnframt eru í hans eigu.

„Já, það var byrjunarlógíkin,“ segir Jón. „Þetta var lítið verkefni fyrir okkur fyrst, þegar við fórum inn í þetta. Svo fór þetta bara að vefja utan á sig. Þetta var samt þrælskemmtilegt. Það vita allir sem að fjölmiðlum koma að þeir eru skemmtilegt fyrirbæri, að fylgjast með. Svo sáum við tækifæri á markaðnum, og vorum kannski mörgum árum á undan með þá hugmynd að sameina símafyrirtæki og fjölmiðlafyrirtæki en Dagsbrún var einmitt sú pæling. Svo hefur það raungerst síðar.“

Jón Ásgeir segist hafa komið inn á fjölmiðlamarkaðinn strax eftir aldamótin síðustu og að undir eins hafi „geggjunin“ hafist í „öllu kerfinu“. Davíð Oddsson kom þá fjölmiðlafrumvarpinu svokallaða í gegnum þingið og duldist engum að frumvarpið var miðað sérstaklega að Jóni og fjölmiðlaveldi hans. Forseti Íslands beitti síðar málskotsrétti sínum í fyrsta sinn í lýðveldissögunni og dró þingið frumvarpið til baka.

Sú saga hefur gengið manna á milli, sérstaklega innan fjölmiðla, að afskipti Jóns af ritstjórnarstefnu fjölmiðla í hans eigu hafi verið áþreifanleg og á allra vitorði.

Jón neitar því að ritstjórnarstefna fjölmiðla hans hafi tekið mið af persónulegum þörfum hans. „Ég myndi nú reyndar segja, sérstaklega eftir hrun, að fjölmiðlar sem við tengdumst hafi ekki verið sérstaklega hliðhollir okkur.“

Og þú gerðir aldrei tilraunir til að stíga inn í þá umfjöllun?

„Nei, það er bara þvæla. Ég hefði þá bara verið ritstjóri. Ef maður ætlar sér að stýra fjölmiðli svoleiðis þá þyrfti maður að fá PDF-skjalið fyrir prentun á hverjum degi og endurskrifa allar fréttir. Það sér það hver maður að slíkt er ómögulegt.“

En mannaráðningar? Skiptir þú þér af þeim?

„Ég sem eigandi ræð auðvitað ritstjórann, það er klárt.“

Var Mikael Torfason rekinn af Séð og heyrt vegna neikvæðrar fréttar um fjölskyldumeðlim þinn?

„Ég hef ekki rekið menn fyrir svoleiðis. Ég hef hins vegar tekið mér þann rétt, sem allir eiga að taka sér finnist þeim á sér brotið í umfjöllun fjölmiðla, að hringja í fjölmiðla og láta í sér heyra. Mér fyndist jafnframt óeðlilegt að gerð væri sú krafa til eigenda fjölmiðla að þeir fyrirgeri þeim rétti,“ segir Jón.

Þér finnst þá ekki að gera hefði átt ríkari kröfur um hlutleysi og afskiptaleysi til þín sem eiganda fjölmiðils?

„Nei, og ég held meira að segja að þetta snúist upp í andhverfu sína. Það verður að segjast um blaðamenn að þeir hafi í gegnum tíðina frekar snúist upp á móti eigendum. Þeir vilja ekki þurfa að vera á næsta kaffihúsi og láta segja við sig hvað þeir séu nú góðir við eigandann. Það vill enginn blaðamaður vera þar.“

Jón segist nú vera farinn úr fjölmiðlabransanum fyrir fullt og allt. „Ég hef sagt við menn að það sé hollt að kynnast fjölmiðlum og hvernig þeir virka, en ég er bara búinn með minn tíma. Ég þekki þetta nægilega vel, ég eyddi of miklum tíma í þetta á sínum tíma. Farsællega komust þessir fjölmiðlar sem við tengdust í gegnum ákveðnar brekkur en nú er komið gott.“

Bráðsmitandi baktería

Jón er þriðju kynslóðar verslunarmaður. Það vakti því óneitanlega athygli í síðustu viku þegar svokölluð „hundrað krónu verslun“ birtist á netinu. Allt seldist upp á síðunni á skömmum tíma og reyndist kaupmaðurinn á bak við gjörninginn vera Stefán Franz Jónsson, sonur Jóns Ásgeirs.

Afi þinn var hjá SS. Pabbi þinn líka.

„Og ég líka,“ stingur Jón inn í samtalið. „Ég byrjaði þarna að raða kóki í kælinn hjá SS.“

Og núna er fjórða kynslóðin mætt?

„Já, já, það eru alveg til verri hugmyndir,“ segir Jón stoltur á svip um uppátæki sonar síns. „Þetta er nýtt á Íslandi og tæklar til dæmis matarsóun, en það hefur lengi verið vandamál í íslenskum verslunum. Of miklu er hent hér á landi,“ útskýrir Jón.

Óneitanlega má sjá líkindi með frumkvöðlastarfsemi Stefáns nú árið 2021 og uppátækjum Jóns Ásgeirs og Jóhannesar seint á síðustu öld.

Báðir taka þeir þarna hugmynd sem hafði gengið vel erlendis, annars vegar svokallaðar vörubrettabúðir og hins vegar „dollar-store“ hugmyndafræðina og yfirfæra á íslenskan markað. Aðspurður hvernig þessi sami áhugi verði til meðal fjögurra kynslóða segir Jón áhugann vera bakteríu. „Ég ólst upp við þetta, þegar pabbi og afi hittust þá var bara talað um Sláturfélagið.“

Þannig að þörfin fyrir að kaupa á einum og selja á tveimur er ekki í genunum? Þetta er uppalið?

„Já, það má segja það.“

Ertu stoltur af stráknum?

„Já, algjörlega,“ segir hann staðfastlega.

Jón á þrjú börn úr fyrra sambandi og er stjúpfaðir þriggja barna Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu sinnar. „Mér finnst gaman að vinna með krökkunum sem eru mörg með sinn eigin „bissness“.“

Hvað ertu með í pípunum núna?

„Alltaf með eitthvað í pípunum,“ segir Jón og þegir svo þunnu hljóði. Hér á ekki að gefa neitt upp.

Eins og hvað?

„Ég get ekki sagt það.“

mynd/Sigtryggur Ari

„Freedom-day“

Liðin eru hektísk ár. Fyrst Bónusárin, svo Baugsmálið, svo góðærið. Skyndilega voru 80 fyrirtæki með tugþúsundir starfsmanna um allan heim skrifuð á Jón Ásgeir, Bónuskaupmanninn í Skútuvogi. Svo „hrunið“ og dómsmál í ellefu ár. Það er því ekki úr vegi að spyrja hreint út:

Stendur „freedom-day“ undir nafni?

„Hann stendur allavega undir nafni hvað málaferlin varðar. Ég held nú að þróunin sé almennt sú að fólk sé að laga vinnuna sína betur að heimilislífinu. Þetta er mjög jákvæð þróun. Svo á að stytta vinnuvikuna, og fólk er þá að gera annað í staðinn,“ segir Jón með rólyndisbrag.

„Ætli það sé ekki komið að mér núna að stytta vinnuvikuna mína,“ segir Jón loks. Við það hefur hann engu að bæta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður
Fréttir
Í gær

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé
Fréttir
Í gær

Leigusali í Grindavík ofrukkaði leigjandann eftir hamfarirnar

Leigusali í Grindavík ofrukkaði leigjandann eftir hamfarirnar
Fréttir
Í gær

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt
Fréttir
Í gær

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“
Fréttir
Í gær

Sá sjálfur um lagnirnar og er sakaður um dómgreindarleysi, hroðvirkni og vanrækslu – Þarf að greiða kaupandanum tæpar 15 milljónir

Sá sjálfur um lagnirnar og er sakaður um dómgreindarleysi, hroðvirkni og vanrækslu – Þarf að greiða kaupandanum tæpar 15 milljónir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fangi lést á Litla Hrauni í dag

Fangi lést á Litla Hrauni í dag