„Kópavogsbúar hafa lengi saknað mannvæns miðbæjar verslunar og þjónustu í hjarta Kópavogs þar sem boðið væri upp á skjólgott og sólríkt umhverfi og um leið svigrúm fyrir fjölbreytt mannlíf íbúa svæðisins, verslunar, þjónustu og gesta. Það yrði góð viðbót við hinn ágæta menningarmiðbæ sem liggur austan megin við Borgarholtið.“
Svona hefst pistill sem Tryggvi Felixson hagfræðingur skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni „Skuggalegt“ skipulagsslys boðað í Kópavogi. „Í stað þess að bregðast við þessum vonum íbúa með tillögum unnum í samráði við bæjarbúa, hafa bæjaryfirvöld lagt áherslu á samstarf við fjárfesta sem hafa allt önnur markmið í huga. Árangurinn af því samstarfi hefur nú litið dagsins ljós í skipulagstillögu fyrir bút af miðbæjarsvæðinu,“ segir Tryggvi í pistlinum. „Hún er skuggaleg í orðsins fyllstu merkingu.“
Tryggvi segir að um sé að ræða Fannborgarreit og Traðarreit vestur. „Skipulagið hefur þó verið kennt við Hamraborg, sem er ekki sannleikanum samkvæmt því skipulagið er án tengingar við Hamraborgina, Borgarholtið og áformaða borgarlínu,“ segir hann. Samkvæmt Tryggva er þessi tillaga nú kölluð „bútasaumurinn“ af mörgum. „Birtu og sól er fórnað á altari fjárhagslegrar afkomu verkefnisins. Skipulagstillagan er að mestu ættuð frá fjárfestum en afar lítil eftirspurn hefur fram til þess verið eftir skoðunum bæjarbúa og þeirra sem á Hamraborgarsvæðinu reka þjónustu og verslun.“
„Mikilvægt að lágmarka óþægindi og mögulegt tjón“
Tryggvi segir að nú séu bæjaryfirvöld í Kópavogi með fjölmargar athugasemdir til umfjöllunar en þessar athugasemdir hafa borist vegna tillögunnar sem um ræðir. „Nú vona margir það besta, en óttast það versta,“ segir hann.
„Bæjaryfirvöld verða að vanda betur til verka og afstýra því skuggalega skipulagsslysi sem virðist í uppsiglingu í hjarta Kópavogs. Hvernig til tekst getur ráðið úrslitum um bæjarbrag í Kópavogi til langrar framtíðar. Vel ígrundaðar nýframkvæmdir geta gert svæðið að langþráðri „huglægri sameign“ allra íbúa bæjarins og um leið að samnefnara og sál bæjarlífsins. Þess vegna þarf aðkoma bæjarbúa að mótun verkefnisins að vera svo miklu meiri en raun ber vitni. Það er líka mikilvægt að lágmarka óþægindi og mögulegt tjón þeirra sem búa fyrir á svæðinu. Sá sjálfsagði réttur þeirra hefur til þessa verið fótum troðinn.“
„Vonandi hlusta bæjaryfirvöld“
Tryggvi segir að nú sé hópur Kópavogsbúa búinn að taka sig saman en hópurinn kallar sig Vinir Kópavogs. Hópurinn hefur tekið saman rökstuddar athugasemdir við fyrirliggjandi skipulagstillögur bæjaryfirvalda. „Í þeim ábendingum koma fram svo alvarlegir gallar að full ástæða er til þess að mati hópsins, að setja verkefnið í heild sinni í endurmat og uppstokkun. Einnig er bent á marga lögformlega og tæknilega vankanta sem bera þess augljós merki að hvorki hefur verið vandað til verka né tekið mark á fjölmörgum athugasemdum á fyrri stigum málsins.“
Þá segir Tryggvi að handvömmin sé slík að umfangi að eina ráðið sem dugar er að leggja tillöguna til hliðar og vinna með nýjan valkost. Hann segir að það þurfi að hafa þrjú meginsjónarmið að leiðarljósi en sjónarmiðin sem um ræðir má sjá hér fyrir neðan.
„1) Miðbæjarsvæðið verði skipulagt sem ein heild. Sérstaklega þarf að gæta að lagfæringum á Hamraborginni sjálfri og tengingu hennar við aðra hluta miðbæjarins og flæði á milli þeirra. Skoða þarf vel hvort og þá hvernig megi nýta fyrirliggjandi húsnæði og draga úr sóun.
2) Virkja bæjarbúa við gerð skipulagsins og gæta að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hagsmunir og velsæld íbúa á svæðinu og miðlægt hlutverk miðbæjarins fyrir alla Kópavogsbúa verði í fyrirrúmi. Þegar risaverkefni af þessu tagi er annars vegar, sem mótað getur mannlíf í Kópavogi til langrar framtíðar, er aðkoma íbúanna að mótun verkefnisins, samkeppni um endanlegar útfærslur og síðan samþykki í íbúakosningu forsenda þess að hjartað í bænum verði eign þeirra allra.
3) Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna verði höfð að leiðarljósi en ekki til skrauts. Kröfur verði gerðar til framkvæmdaaðila um formlegar gæða- og umhverfisvottanir og skýr bindandi fyrirmæli um ódýrar íbúðir og leiguhúsnæði. Sett verði raunveruleg haldbær skilyrði um fjölbreytta búsetu og önnur þau atriði sem stuðla að bættu mannlífi.“
Að lokum segir Tryggvi að nú reyni á samtakamátt Kópavogsbúa en hann vonar að bæjaryfirvöld hlusti. „Nú reynir á samtakamátt Kópavogsbúa ef afstýra á skipulagsslysi sem er í uppsiglingu í bæjarfélaginu. Vonandi hlusta bæjaryfirvöld á þær mörgu og vel rökstuddu athugasemdir sem fram hafa komið við skipulagstillöguna og bæta ráð sitt.“