Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og vitnar í svar ríkislögmanns við fyrirspurn blaðsins. Fram kemur að samkomulagið hafi verið gert í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá í desember á síðasta ári þar sem ríkið var dæmt til að greiða fyrrverandi fiskifræðingi hjá Hafró 3,5 milljónir í skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar í nóvember 2019 og 1,8 milljónir í málskostnað.
Héraðsdómur sagði að uppsögnin hafi verið haldin verulegum annmarka og hafi ekki aðeins valdið starfsmanninum skaðabótaskyldu tjóni heldur einnig vegið að æru hans og persónu.
Tíu öðrum starfsmönnum var sagt upp hjá Hafró þennan sama dag og segir í dómi héraðsdóms að sama uppsagnarformið hafi verið notað við alla starfsmennina.
Ríkislögmaður samdi því við fjóra fyrrum starfsmenn stofnunarinnar um að greiða þeim samtals 11.985.407 krónur í bætur og 3.848,375 krónur í lögmannskostnað.