Maður var í dag sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa ráðist á mann í Hagkaup í Spönginni í Grafarvogi, slegið hann í höfuðið og hótað að búta hann niður.
Atvikið átti sér stað í nóvember árið 2019. Rúmlega mánuði áður er maðurinn sagður hafa stolið hengilás og vettlingum á N1 bensínstöð við Ártúnshöfða.
Þá var maðurinn sakaður um að hafa, sama dag og hann réðst á manninn í Hagkaup, stolið úr búðinni farsímavörum og DVD mynddisk.
Hann var sakaður um yfir tíu brot í viðbót, mestallt búðarhnupl og fíkniefnavarsla. Meðal annars stal hann kassa af brómberjum úr versluninni Super 1 við Hallveigarstíg.
Listinn er langur en meðal annars er maðurinn sakaður um að hafa farið inn á starfsstöð HS Orku hf. við Svartsengi í Grindavík og stolið þaðan fartölvu að verðmæti 290.000 krónur.
Samtals er maðurinn ákærður fyrir 15 brot og játaði hann sök í þeim öllum.
Var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og til greiðslu sakarkostnaðar í málinu.