Kona sem svipt var leyfi til daggæslu barna á heimili sínu í stuttan tíma höfðaði skaðabótamál á hendur borginni vegna tekjumissis og fór fram á tvær og hálfa milljón króna í bætur. Kveðinn var upp dómur í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Málið hófst með því að starfsmaður Skóla- og frístundasviðs kom í eftirlitsferð á heimili konunnar og gerði athugasemdir við að óvarið stigaop væri í húsinu. Fékk konan tölvupóst með tilmælum um að gera þarna úrbætur. Konan hafnaði hins vegar þessum athugasemdum á þeim forsendum að stiginn hefði fram til þessa aldrei verið til vandræða, hún hefði kennt börnunum að umgangast hann og stiginn væri auk þess ekki á daggæslusvæði íbúðarinnar. Aldrei hefðu verið gerðar athugasemdir við stigann áður í þau tíu ár sem daggæsla hefið verið rekin í húsinu.
Konan fékk í kjölfarið annað bréf frá borginni þar sem fyrri athugasemdir voru ítrekaðar og henni var gefinn sjö daga frestur til að gera úrbætur. Hún varð ekki við því.
Héldu þessi samskipti áfram um hríð án þess að konan gæfi sig. Nokkrir aðilar komu að samskiptunum og frekara eftirliti, nokkrir starfsmenn innan Skóla- og frístundasviðs, eftirlitsmaður frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og starfsmaður frá þjónustumiðstöð á vegum borgarinnar. Konan kvartaði undan því að aðilar sem kæmu málið ekki við væru að hafa afskipti af því. Hún neitaði borginni um að sinna frekara eftirliti í húsinu.
Svo fór að konan var svipt leyfi til daggæslu í febrúar árið 2019 en aðeins í þrjá daga. Í millitíðinni sendi hún frá sér ljósmynd sem sýndi að til staðar var öryggishlið sem hægt var að draga fyrir stigaopið. Hélt hún því fram að það hefði verið til staðar frá upphafi málsins. Fékk hún í kjölfarið starfsleyfið aftur.
Konan segir að starfsleysissviptingin hefði leitt til þess að hún gæti ekki lengur séð fyrir sér á sínu starfssviði. Hún hefði orðið fyrir það miklum álitshnekki vegna sviptingarinnar auk þess sem þessi aðgerð hefði haft gífurlega slæm áhrif á andlega heilsu hennar.
Í dómsorði var sagt að konan hefði mjög gott orð á sér sem dagmóðir eftir tveggja áratuga starfsferil í faginu. Dómara virðist sem málið sé tilkomið vegna misskilnings. Þó hafi ekki verið nægilega sýnt fram á að útdraganlegt öryggishlið sem hægt er að draga fyrir stigaopið hafi raunverulega verið til staðar þegar eftirlit var innt af hendi á staðnum. Það hafi að minnsta kosti ekki verið sýnilegt þegar eftirlitið átti sér stað.
Er það mat dómarans að orsaka starfsleyfissviptingarinnar megi að miklu leyti rekja til viðbragða konunnar sjálfrar við tilmælum borgarinnar um að gerðar yrðu öryggisúrbætur við stigaopið í húsinu.
Var borgin sýknuð af fjárkröfum konunnar en málskostnaður fellur niður.