„Við erum opin,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við NBC News í Bandaríkjunum á dögunum en NBC News er ein stærsta fréttastofa Bandaríkjanna.
Frétt NBC News fjallar um viðbrögð Íslands við kórónuveirunni og stöðuna hér á landi í dag. Ljóst er að aðrir horfa með öfund til Íslands þar sem hér er búið að opna meira en í flestum öðrum löndum. „Nemendur eru í kennslustofum. Skemmtistaðir og veitingastaðir eru troðfullir. Ferðamenn eru velkomnir,“ segir í fréttinni og þá er tekið fram að ekki hafi komið upp nein ný smit hér innanlands vikum saman. Það er þó ekki alveg rétt þar sem nokkur smit voru greind í síðustu viku, svo virðist þó vera sem þau hafi verið einangruð nógu snemma þar sem smitin hafa ekki farið upp á við í kjölfarið.
Katrín hrósar íslensku þjóðinni í viðtalinu og segir hana vera ástæðuna fyrir árangrinum. „Ef ég hugsa um þennan faraldur, það sem stendur uppi, í alvörunni, er hvernig íslenska þjóðin hefur tekið þátt. Hvernig fólk hefur raunverulega treyst ráðum sérfræðinga og vísindamanna,“ segir Katrín í viðtalinu. „Fólk breytti í alvörunni hegðun sinni.“
Þá er talað um landamærin á Íslandi, það er að segja hvernig haldið er utan um þá sem koma til landsins. „Ferðamenn og Íslendingar þurfa að sýna neikvætt PCR próf við komu og fara svo í skimun á flugvellinum og aftur eftir fimm daga sóttkví,“ segir í fréttinni og Katrín kemur með sína athugasemd á það. „98% fólks kemur í seinni skimunina og mér finnst það vera mögnuð niðurstaða,“ segir hún.
Flutti til Íslands í faraldrinum
Í fréttinni er einnig rætt við Brent Ozar frá San Diego en hann flutti til Íslands til að vinna hér á meðan faraldurinn er í gangi. „Ég endaði hér á Íslandi því ég er með astma. Þegar kórónuveirufaraldurinn kom hugsaði ég um alla staðina sem ég gæti farið á og mér fannst Ísland vera svo töfrandi staður til að vera á og einangra sig í smá,“ segir Ozar. „Mér líður eins og ég búi í sveitinni, eins og í Michigan eða Ohio en með alvöru evrópskum blæ.“
Ozar segir þá að honum líði eins og hann sé miklu öruggari hér á landi þar sem íslenska þjóðin tekur faraldrinum alvarlega. „Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að fara í lyftu með fólki sem notar ekki grímur,“ segir Ozar.