„Það er ekki víst að verði eldgos, það tekur ekki langan tíma fyrir svona mjóan kvikugang að storkna,“ sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar, í viðtali í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
Þróun kvikugangsins á Reykjanesi hefur verið hagstæð í dag, núna lítur út fyrir að mögulegt eldgos verði mjög fjarri byggð og ógni ekki Suðurstrandarvegi. Kvikugangurinn er hættur að ganga til suðurs og er núna líklegast að gjósi nyrst í Fagradalsfjalli en ekki í Nátthaga eins og áður leit út fyrir.
Engin merki eru um að kvika sé að færast nær yfirborði. Líkur á gosi eru svipaðar og áður en það er alls ekki öruggt að til eldgoss komi.