fbpx
Þriðjudagur 04.febrúar 2025
Fréttir

Ólga í júdóhreyfingunni – Segir áhrifamenn hjá sambandinu hafa verið drukkna á Norðurlandamóti

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 12. mars 2021 20:00

Frá Íslandsmeistaramóti í Júdó fyrir allmörgum árum. Mynd: Pjetur Sigurðsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í lok febrúar birtist tilkynning á Facebook-síðu Júdódeildar UMFN þess efnis að deildin hefði sagt sig úr Júdósambandi Íslands. Deildin breytti við þetta um nafn og heitir núna Glímudeild UMFN. Tilkynningin er ætluð iðkendum í Glímudeild UMFN, sem eru að stórum hluta börn og ungmenni, og er fremur mildilega orðuð. Þó er broddur í lok hennar þar sem segir: „Við vonumst að sjálfsögðu til þess að JSÍ bæti starfshætti sína svo hægt verði að taka upp samstarf við sambandið á nýjan leik.“

Öllu harðorðari tilkynning um sama mál var hins vegar send í tölvupósti til allra júdódeilda landsins og til allra stjórnarmanna í Júdósambandi Íslands, þar sem þungar ásakanir eru reifaðar, þó ekki sé djúpt farið í þær. Þar eru ásakanir um óreglu stjórnarmanna, mismunun á félagsmönnum og hunsun. Í samtali DV við formann Glímudeildar UMFN koma einnig fram ásakanir um ámælisverða framkomu Júdósambandsins við konur, unnið sé gegn framgangi þeirra í íþróttinni og sumar hafi mátt þola kynferðislega áreitni.

Tilkynningin harðorða sem send var í tölvupósti er eftirfarandi:

„Á aðalfundi Júdódeildar UMFN, þann 23. febrúar, var ákveðið samhljóða að breyta nafni deildarinnar í Glímudeild UMFN. Jafnframt var samhliða ákvörðun fundarins að deildin segi sig úr Júdósambandi Íslands og hætti allri samvinnu við sambandið.

Deildin telur sig ekki geta haldið áfram að byggja upp gott og heilbrigt íþróttastarf innan vébanda JSÍ, en þar vega mest óregla, mismunun, hunsun og árásir sem deildin telur sig hafa orðið fyrir frá stjórn og meðlimum stjórnar JSÍ í fjölda ára sem verður ekki útskýrð nánar hér í þessu bréfi.

Þetta er deildinni afar þung ákvörðun og er hún ekki tekin léttvægt. En það er okkar mat að með sama áframhaldi í rekstri og stjórnun sambandsins muni íþróttin sem okkur þykir svo vænt um deyja á næstu árum. Ef nánari útskýringa er óskað getið þið sent póst á judo@umfn.is

Engin viðbrögð við yfirlýsingunni

Formaður Glímudeildar UMFN og höfundar þessarar yfirlýsingar er Guðmundur Stefán Gunnarsson. Í spjalli við DV segir hann að hann hafi engin viðbrögð fengið við yfirlýsingunni sem send var út til fjölda aðila í júdóhreyfingunni þann 27. febrúar.

„Það hafa engar spurningar borist, sem er mjög skrýtið, því ég ýja þarna að alls konar hlutum,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir þöggun og ógegnsæi ríkja innan hreyfingarinnar. Um tíma hafi ástandið verið þannig að allt of margir þræðir stjórnunar sambandsins hafi verið í höndum eins manns, Bjarna Friðrikssonar. „Fyrir nokkrum árum birti ég yfirlýsingu þess efnis að ég teldi það rýra traust á sambandinu að sami maður væri framkvæmdastjóri þess, stjórnarmaður, væri yfir alls konar nefndum og ráðum innan og utan sambandsins, og væri auk þess framkvæmdastjóri júdófélags innan sambandsins. Þetta var Bjarni Friðriksson,“ segir Guðmundur. Segir hann að hann hafi fengið lítil viðbrögð við þessu erindi. Núverandi formaður sambandsins er Jóhann Másson og framkvæmdastjóri er Þormóður Árni Jónsson.

Sem dæmi um hunsun sem kvartað er yfir í yfirlýsingunni hér að ofan nefnir Guðmundur að hann hafi boðist til þess á síðasta ársþingi sambandsins að taka að sér kvennalandsliðið í júdó og búa til umgjörð um það, hann væri til í að gera það frítt ef ekki væru til fjármunir til verkefnisins. Viðbrögðin voru engin, að sögn Guðmundar. „Maður er algjörlega hunsaður,“ segir hann.

Drukknir á Norðurlandamóti

Guðmundur minnist einnig á óreglu í yfirlýsingunni og greinir stuttlega frá í því í spjalli við DV, að á Norðurlandamóti sem haldið var fyrir örfáum árum hafi aðilar í ábyrgðarstöðum hjá sambandinu verið drukknir á mótstað. Hafi það ekki haft neinar afleiðingar enda séu mál einatt þögguð niður hjá sambandinu.

Þá segir Guðmundur að konur eigi mjög erfitt með að ná framgangi innan júdóhreyfingarinnar. „Hjá mér æfir kona sem hefur verið neitað um að taka svartabeltisprófið í tvö skipti. Hún uppfyllir samt allar kröfur til að fara í prófið en henni er samt neitað um það,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Það er ein og ein kona sem kemst áfram en ef litið er á iðkendafjöldann í Júdósambandinu sést að það eru mjög fáar konur virkar.“

Fyrir nokkrum árum steig fram kona og greindi frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu júdóþjálfara, sem var í því fólgin að hann hvatti hana með ágengum hætti til að afklæðast að fullu fyrir vigtun. Hafi henni liðið mjög illa í þessum aðstæðum. Áttu þessar samræður sér stað í gufubaði sem þjálfarinn hvatti hana til að fara í, í því skyni að kanna líkamsþyngd eftir að hún hefði losað sig við vatn úr líkamanum.

Guðmundur segir að þetta sé langt því frá eina atvikið þar sem konur hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni innan júdóhreyfingarinnar en málin séu ávallt þögguð niður.

DV hafði samband við Jóhann Másson, formann Júdósambands Íslands, til að falast eftir viðbrögðum við yfirlýsingu Glímudeildar UMFN og þeim ásökunum sem koma fram í spjallinu við Guðmund. Símasamband náðist við Jóhann en hann gat ekki veitt viðtal vegna anna. Reynt verður að ná samband við hann eftir helgi og verður nánar greint frá málinu þá ef tilefni gefst til þess.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Allt stefnir í að Brynjar sé að fá nýja vinnu – Með minni menntun en meiri reynslu

Allt stefnir í að Brynjar sé að fá nýja vinnu – Með minni menntun en meiri reynslu
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Víkingur Heiðar vann til Grammy-verðlauna

Víkingur Heiðar vann til Grammy-verðlauna
Fréttir
Í gær

Senn dregur til tíðinda í kapphlaupinu um „stærsta fjársjóð mannkyns“

Senn dregur til tíðinda í kapphlaupinu um „stærsta fjársjóð mannkyns“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sögð ekki hafa áttað sig á eðli parkets

Sögð ekki hafa áttað sig á eðli parkets
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“