Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Þórarni Eyfjörð, framkvæmdastjóra kjara- og reksturs hjá stéttarfélaginu Sameyki, að þetta nýja vaktafyrirkomulag sé ekki það sem lagt hafi verið upp með í tengslum við styttingu vinnuvikunnar. Hann sagðist hafa trú á að hægt verði að snúa þessu við fyrir 1. maí þegar breytingin á að taka gildi. Á fjórða tug landamæravarða eru félagsmenn í Sameyki.
Undirbúningur undir styttingu vinnuvikunnar hófst í apríl 2019 og í janúar 2020 var tilkynnt að nýja vaktakerfið yrði tekið upp 1. maí það ár. Því var frestað vegna heimsfaraldursins og hólfaskiptingar sem gripið var til meðal landamæravarða vegna hans.
Fréttablaðið hefur eftir Þórarni að fjölbreytileiki vakta hafi verið eitt af meginmarkmiðunum með styttingu vinnuvikunnar en ætlunin hafi verið að hætta með tólf tíma vaktir sem valdi álagi og hættu á mistökum í starfi. Hann sagði að lengd vakta eigi heldur ekki að fara of langt í hina áttina heldur eigi að skipuleggja þær með eðlilegum hætti. „Átta tímar eru viðmiðið. Í samkomulaginu sem við gerðum á opinbera vinnumarkaðinum er að okkar mati ekki opin heimild fyrir atvinnurekendur til að skipuleggja stubbavaktir,“ sagði hann.
Sameyki hefur gert alvarlegar athugasemdir við skipulag vakta landamæravarða við innleiðingarhóp sem er skipaður fulltrúum atvinnurekanda og stéttarfélaga og er málið til skoðunar þar að sögn Þórarins.