Kristín Helgadóttir er ráðþrota móðir ungs manns sem stríðir við fíkn og geðræn vandamál. Hún birti ákall á Facebook-síðu sinni í gær og lýsir því yfir að fréttamiðlum sé heimilt að birta skrif hennar. Í stuttu máli liggur vandi sonar hennar í þeirri mótsögn að hann hefur, í núverandi ástandi sínu, ekki dómgreind til að þiggja þá aðstoð sem honum er svo nauðsynleg. Hið opinbera muni hins vegar ekki grípa inn í, að óbreyttu, fyrr en hann brýtur af sér.
Kristín skrifar:
„Hann var glaðlynt barn, hugmyndaríkur sveimhugi og mörgum gáfum gæddur. Þrátt fyrir að fá gott uppeldi, búa við ástríki og öryggi hefur sonur minn leiðst út í neyslu ávana- og fíkniefna og neytt þeirra rúmlega hálfa ævi sína. Eins og margir vita sem þekkja til afleiðinga notkunar sterkra fíkniefna, verður neyslan oft harðari þegar á líður og geðveikin kveður dyra. Ofskynjanir, mikill ótti, árátta og þráhyggja ásamt lítilli raunveruleikatengingu, er þess valdandi að sonur minn er ekki húsum hæfur. Það skal tekið fram að sonur minn er svo lánsamur að eiga tvær yndislegar fjölskyldur, föður- og móðurfjölskyldur þar sem foreldrar og systkini sakna góðs sonar og bróður, sem þau ná ekki sambandi við sökum neyslu hans og áunninnar geðveiki.“
Kærleiksríkar fjölskyldur sonar Kristínar eru hins vegar ráðalausar vegna þess að hann vill ekki þiggja aðstoðuna sem honum stendur til boða. „Hann er ekki lengur húsum hæfur, horaður, vannærður og geðveikur, á ráfi um stræti Reykjavíkur,“ segir Kristín. Það besta sem getur komið fyrir hann núna er að vera tekinn úr umferð og þegar hann sat um skeið í fangelsi öðluðust ástvinir hans hugarró og hvíld frá vandanum. En þegar hann kom út úr fangelsi seig aftur á ógæfuhliðina:
„Þegar sonur minn kom út úr fangelsinu í vor, leit ég lífið bjartari augum, þar sem sonur minn vildi þiggja að komast sem fyrst í stuðningsúrræði svo sem á Vog, Krísuvík eða Hlaðgerðarkot svo hann færi ekki beina leið í ruglið aftur. Við tóku 10 dagar þar sem við keyrðum á milli stofnana að beiðast ásjár og stuðnings. Í stuttu máli sagt komum við að luktum dyrum og syni mínum hrakaði dag frá degi, þar sem hann fór mjög fljótt í harða neyslu og að endingu í geðrof með ógnandi hegðun. Taflið snérist við og sonur minn var ekki lengur á leið í stuðningsúrræði. Hann vantaði bara peninga frá okkur til að geta átt fyrir neysluskammti dagsins. Við foreldrarnir hringdum í lögregluna, síðasta daginn í björgunaraðgerðum okkar, til að láta vita af ásigkomulagi okkar ástkæra sonar og ótta við að hann myndi skaða einhvern sem á vegi hans yrði, sökum geðrofsins og óttans sem var alls ráðandi hjá honum. Samtalið við lögregluna var gott og styrkjandi en hún gat ekkert aðhafst þar sem sonur okkar hafði ekki ógnað öðrum á þessum tímapunkti.“
Kristín segir að foreldrar drengsins hafi síðustu tvo sólarhringa mætt með örmagna son sinn á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri þar sem enga hjálp var að fá fyrir alvarlega veikan fíkil. „Næsta ráð var að fljúga með soninn suður en flugfélagið treysti sér ekki til að hafa hann ásamt foreldri um borð þannig að tekið var á það ráð að keyra soninn suður þrátt fyrir mjög slæmt ástand á honum. Þegar kom að því að mæta á bráðamóttöku geðsviðs LSH tókst syni okkar að flýja af staðnum þar sem ranghugmyndir og geðveiki hamlaði samvinnu hans,“ skrifar hún.
Kristín biður um hjálp og merkir eftirfarandi aðila í færslu sinni: Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Ásmundur Daði Einarsson barna- og félagsmálaráðherra, Reykjavíkurborg, Kári Stefánsson forstjórir ÍE.
Grein Kristínar má lesa í heild með því að smella á tengilinn hér að neðan.
https://www.facebook.com/kristin.helgadottir2/posts/4374824102533488