Varðskipið Þór, rannsóknarskipið Árni Friðriksson og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út á þriðja tímanum í dag vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldurs sem varð vélarvana mitt á milli Flateyjar og Stykkishólms.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um bilunina klukkan 14:27. 28 eru um borð í Baldri, 20 farþegar og átta manna áhöfn. Rannsóknarskipið Árni Friðriksson verður kominn að Baldri á fimmta tímanum og er gert ráð fyrir að ferjan verði tekin í tog til Stykkishólms.
Varðskipið Þór er jafnframt á leið á staðinn en skipið var statt í Helguvík þegar útkallið barst. Baldur varpaði akkerum fljótlega eftir að bilunarinnar varð vart til að hindra rek. Akkerin halda vel. Vindátt er úr norðaustri og ef rek yrði á skipinu ræki það frá landi og grynningum. Ástandið um borð er tryggt en til að gæta fyllsta öryggis var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út og verður í viðbragðsstöðu ef á þarf að halda.