Í kvöld verður frumsýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut nýr vikulegur þáttur um íslenskt viðskiptalíf í umsjón ritstjórnar Markaðarins. Kafað verður ofan í helstu fréttir vikunnar og rætt um það sem hæst ber í efnahags- og viðskiptalífinu.
„Viðskiptaþátturinn mun breikka ásýnd Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins, og styrkja stöðu þess enn frekar sem helsti vettvangur umfjöllunar um það sem máli skiptir í íslensku viðskiptalífi. Við erum fullir tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni,“ segir Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins.
Í hverri viku munu helstu efnahagssérfræðingar landsins mæta í settið og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, verður fyrsti gestur þáttarins. Þar mun hann fara yfir stöðu og horfur í hagkerfinu einu ári eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á.