Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur lagt fram kæru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á hendur Jóhannesi Stefánssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra félaga sem tengjast Samherja og ráku útgerð í Namibíu, fyrir rangar sakargiftir. Þetta kemur fram á vefsíðu Samherja.
Tilefni kærunnar eru ýmis ummæli Jóhannesar undanfarið þess efnis að reynt hafi verið að koma honum fyrir kattarnef í tengslum við upplýsingagjöf hans í fréttaskýringaþættinum Kveiki, en Jóhannes var uppljóstrari þáttarins þar sem greint var frá meintum mútubrotum Samherja í Namibíu. Segir Jóhannes að eitrað hafi verið fyrir honum og reynt að frelsissvipta hann. Hefur Jóhannes efnt til fjársöfnunar til að fjármagna læknismeðferðir vegna meintrar eitrunar.
Í fréttatilkynningunni segir:
„Lögmaður Þorsteins Más lagði kæruna fram í morgun. Tilefni kærunnar eru ýmis ummæli sem Jóhannes, eða fólk á hans vegum, hefur látið falla í fjölmiðlum og víðar að undanförnu vegna fjársöfnunar sem er hafin undir þeim formerkjum að tryggja þurfi Jóhannesi heilbrigðisþjónustu vegna eitrunar því íslenskt heilbrigðiskerfi ráði ekki við það verkefni að veita honum bót meina sinna. Þannig er berum orðum fullyrt á vefsíðu fyrir umrædda fjársöfnun að Jóhannes sé „fórnarlamb manndrápstilraunar“ sem hafi átt sér stað í Höfðaborg í Suður-Afríku snemma árs 2017 og segir Jóhannes í viðtali við namibískt dagblað að fyrrverandi vinnuveitandi hans „hafi haft fulla vitneskju“ um hana. Í öðru viðtali er svo haft eftir Jóhannesi að hann hafi þurft að þola tilraunir til mannráns oftar en einu sinni. Þessar fullyrðingar hans hafa svo margsinnis verið endurfluttar í öðrum fjölmiðlum bæði hér á landi og erlendis.“
Í kærunni segir að Jóhannesi hafi hugsanlega gefið í skyn með ummælum sínum að Þorsteinn Már hafi tengst meintri eitrun og meintum tilraunum til að nema hann á brott.
Í tilkynningunni segir að fullyrðingar Jóhannesar séu hugarburður. Eftirfarandi er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni um málið:
„Hingað til hef ég ekki brugðist sérstaklega við fullyrðingum og margvíslegum ásökunum Jóhannesar. Ég get hins vegar ekki lengur orða bundist því nú vill Jóhannes meina að ég eða samstarfsmenn mínir hafi gert tilraun til að ráða honum bana. Lengra verður ekki ekki gengið en að bera mönnum á brýn að ætla að ráða menn af dögum. Mér er gróflega misboðið og því er óhjákvæmilegt að spyrna við fótum. Þessu til viðbótar freistar Jóhannes þess nú að blekkja fólk til að leggja fé í söfnun undir þeim formerkjum að honum hafi verið sýnt banatilræði. Þetta er allt saman ósköp dapurlegt.“