Dr. María K. Jónsdóttir hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík eftir mat hæfisnefndar sem í sátu innlendir og erlendir fræðimenn.
María hefur kennt og stundað rannsóknir við deildina síðan árið 2014. Hún kennir á öllum námsstigum, í grunnnámi, í meistaranámi í klínískri sálfræði og sem leiðbeinandi doktorsnema. María lauk doktorsprófi í klínískri taugasálfræði frá Háskólanum í Houston, Texas, árið 1990 og hefur sérfræðileyfi í þeirri grein. Hún starfaði lengst af sem klínískur taugasálfræðingur í fullu starfi við Landspítalann þangað til hún var ráðin við sálfræðideild HR. Þar á undan hafði hún sinnt stundakennslu við sálfræðideild Háskóla Íslands í rúm 20 ár og verið þar klínískur dósent. Með klínísku starfi sínu og kennslu og handleiðslu sálfræðinga í gegnum árin hefur María haft mikil áhrif á þróun klínískrar taugasálfræði á Íslandi.
María stundar rannsóknir í samstarfi við fræðimenn í ýmsum deildum Háskólans í Reykjavík, svo sem í sálfræðideild, íþróttafræðideild og verkfræðideild. Hún er auk þess í samstarfi við vísindamenn á Landspítalanum og á einnig í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi.
María hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og hefur sinnt bæði ritrýningu og ritstýrt fyrir erlend fræðirit. Hún situr nú m.a. í siðanefnd Sálfræðingafélags Íslands, í nefnd Evrópusamtaka sálfræðingafélaga um mótun stefnu um þjálfun og menntun klínískra taugasálfræðinga og í rannsóknarráði Háskólans í Reykjavík.