„Mér finnst þetta mjög undarleg hegðun hjá Fjallabyggð, þeir vilja bara ekkert með manninn hafa,“ segir Valgeir Hannesson, eigandi íbúðar á Ólafsfirði. Valgeir leigir skjólstæðingi félagsmáladeildar Fjallabyggðar íbúðina en hann er núna að reyna koma manninum út þar sem hann segist þurfa að rýma húsnæðið sem ekki sé lengur íbúðarhæft eftir eldsvoða sem varð í húsinu í janúar.
Aðfaranótt 18. janúar varð eldsvoði á neðri hæð húss við Kirkjuveg á Ólafsfirði. Lögregla rannsakar þann bruna sem íkveikju. Vefur Mannlífs greindi frá því (og birti myndband frá vettvangi) að íbúi á efri hæðinni hefði látið mjög ófriðlega er slökkvilið kom á vettvang og hefði truflað slökkviliðið við störf sín. Fullyrti maðurinn að um íkveikju hefði verið að ræða og nágranninn hefði ætlað að ráða hann af dögum.
Er lögregluþjónn sagði manninum að slappa af öskraði maðurinn: „Slappa af. Myndir þú slappa af ef það væri reynt að brenna þig inni. Ef einhver væri að kveikja í þér. Ertu hálfviti?“
Þessi sami maður er leigjandinn sem hér um ræðir. Eigandi íbúðarinnar, Valgeir Hannesson, vill fá hann út úr húsinu. Valgeir segir að félagsmáladeild Fjallabyggðar hafi sóst eftir því að Valgeir gerði leigusamning við manninn og ábyrgðist félagsmáladeildin leigugreiðslur. Samkvæmt Valgeiri hefur maðurinn stundum staðið í skilum með greiðslur en stundum ekki. Þegar hann hefur ekki greitt hefur Fjallabyggð greitt leiguna.
Valgeir gagnrýnir félagsmáladeildina ennfremur fyrir að hafa haldið leyndri fyrir sér vafasamri fortíð mannsins:
„Síðan kom í ljós að þessi einstaklingur sem þau báðu okkur um að gera leigusamning hefur rústað fjórum íbúðum á vegum bæjarins. Ég vissi ekki að þessi maður væri kexruglaður en í 99 prósent tilvika er ekkert vesen á skjólstæðingum úr félagslega kerfinu,“ segir Valgeir. Enn verra þykir honum þó að félagsmáladeildin vill ekki aðstoða hann við að rifta leigusamningnum og koma manninum út:
„Núna er húsið hálfbrunnið og ég þarf að fara í útburðarmál gegn manninum til að koma honum út, ég þarf að vesenast í þessu sjálfur og þau vilja ekkert skipta sér af þessu. Það er líklega búið að brenna asbest á neðri hæðinni og það er komið vottorð frá heilbrigðisfulltrúa þess efnis að íbúðin sé óíbúðarhæf. Mér finnst þetta undarleg hegðun hjá bæjarfélaginu að vilja ekkert skipta sér af þessu. Mér finnst líka að allan tímann hafi þau ekki viljað hafa neitt skriflegt, ég hef sent tölvupóst eftir tölvupóst og þegar þau svara þá er það alltaf símleiðis.“
Málið er á borði tveggja bæjarstarfsmanna í Fjallabyggð. Annars vegar er það ráðgjafi félagsþjónustu, en hún hefur verið í samskiptum við Valgeir vegna málsins. DV hafði samband við konuna á laugardag til að óska eftir upplýsingum um málið en hún sagðist engu vilja svara og vissi hún þó ekki erindið. Veitti hún blaðamanni ekki tækifæri til að bera upp erindið.
Hinn starfsmaðurinn sem hefur með málið að gera er deildarstjóri fjölskyldudeildar. DV hefur ekki tekist að ná sambandi við hann símleiðis. Blaðamaður sendi honum fyrirspurn í tölvupósti um helgina, rakti umkvartanir Valgeirs og bað um almenn svör við fyrirspurninni, varðandi mál af þessu tagi, ef ekki væri hægt að tjá sig um einstök mál. Svör hafa ekki borist við fyrirspurninni.