Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á skotárás á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og skotárás á skrifstofu Samfylkingarinnar er enn ekki lokið. Sagt er að rannsóknirnar gangi vel.
Þetta kemur fram í frétt á vef Fréttablaðsins.
Þar kemur fram að Hallur Gunnar Erlingsson, fyrrverandi lögreglumaður og dæmdur kynferðisbrotamaður, hefur stöðu sakbornings í máli Dags B. Ekki kemur fram hvort Hallur Gunnar sé enn í gæsluvarðhaldi. Hann var dæmdur í stutt gæsluvarðhald á sínum tíma á grundvelli rannsóknarhagsmuna og almannahagsmuna. Það síðarnefnda felur í sér að Hallur Gunnar sé álitinn hættulegur. Engar tilkynningar hafa síðan borist frá lögreglu þess efnis að hann sé laus úr haldi né að gæsluvarðhald hafi verið framlengt.
Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að ekki sé vitað hver standi að baki skotárásinni á skrifstofu Samfylkingarinnar en Hallur er einn grunaður um að hafa skotið á bíl Dags.