„Þegar ég sé þetta og kem að þessu þá er eiginlega ekkert annað sem fer í gegnum hugann en að bara bjarga barninu, tékka á barninu, en hann er grátandi allan tímann, þannig að það gaf manni von,“ segir Jónatan Ingi Jónsson, faðir tveggja ára drengs sem lenti undir bíl á leikvelli í Hafnarfirði um helgina. RÚV greindi frá.
Mannlaus bíll rann niður brekku og lenti á rólu við fjölbýlishús í Áslandshverfi í Hafnarfirði síðdegis á sunnudag. Tveggja ára sonur Jónatans varð undir bílnum. Fimm ára systur drengsins tókst að forða sér undan bílnum. Mörg vitni voru að atvikinu því verið var að halda upp á afmæli í húsinu og mörg börn voru úti að leik. Afmælisgestir þustu út og tókst þeim að lyfta bílnum ofan af drengnum.
Sonur Jónatans slapp ótrúlega vel. Hann var útskrifaður af gjörgæslu í dag og dvelst á barnaspítala Hringsins með foreldrum sínum.
„Hann er með sprungu fyrir ofan vinstra eyra sem liggur niður fyrir augað sem mun bara gróa. Þetta er algjört kraftaverk. Það er margbúið að segja það við okkur að þetta sé eiginlega bara kraftaverk,“ segir Jónatan Ingi.
Hann segir að slysið hafi verið mikið áfall fyrir fjölskylduna. Þau séu þakklát fyrir að ekki fór verr og séu ekki í leit að sökudólgum.